144. löggjafarþing — 139. fundur,  30. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[11:19]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ef einhver þingmaður hér í salnum að mér viðstöddum fer í ræðustól á Alþingi og fer ítrekað rangt með staðreyndir, fer með staðleysur, þá leyfi ég mér að koma upp og leiðrétta það. Það er alveg nákvæmlega sama hvort í hlut á hv. þm. Vigdís Hauksdóttir eða einhver annar. Ég tel það hvorki hollt fyrir lýðræðið né þingræðið að menn láti slíkt viðgangast án þess að það sé leiðrétt, að á það sé bent.

Hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur tókst að fara hérna ítrekað rangt með fyrirliggjandi opinberar staðreyndir í stuttri ræðu áðan og ég kom upp og vakti athygli á því og benti á það. Hvers vegna hún gerði það er ég alveg tilbúinn til að ræða, ef flokkssystkini hennar hafa aðrar kenningar um það hvers vegna hún fór rangt með staðreyndir skal ég taka þær skýringar til skoðunar. En veruleikinn er sá að hv. þingmaður fór ítrekað rangt með staðreyndir, fór með staðleysur, bullaði úr ræðustólnum og það á ekki að láta slíku ómótmælt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Varðandi markmiðin árið 2009, og eins og þau voru lítillega aðlöguð vegna betri árangurs árið 2011 en menn höfðu gert ráð fyrir, þá náðust þau. Það er algerlega á hreinu. Markmiðin um jákvæðan frumjöfnuð 2011 og ríkisbúskapinn nokkurn veginn í jafnvægi 2013 og afgang 2014, þetta hefur allt gengið eftir. Þetta náðist. Það eru líka staðreyndir því að það er ríkisreikningurinn sem birtir okkur þær. Ég þykist vita að hv. þm. Höskuldur Þórhallsson lesi hann rækilega þegar hann kemur út og læri hann jafnvel utan að.

Varðandi það að hagvöxtur hefði átt að koma hraðar á Íslandi og verða meiri samkvæmt upphaflegum hugmyndum er það líka rangt. Má ég þá minna á að spár Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Alþjóðabankans, OECD og annarra aðila í árslok 2008 og fram á árið 2009 gengu út á aðra hluti almennt í heiminum en síðan varð. (Forseti hringir.) Ætli hafi ekki verið spáð eitthvað meiri í hagvöxt í Evrópu strax á árunum 2010/2011 en raunin varð?