144. löggjafarþing — 139. fundur,  30. júní 2015.

náttúruvernd.

751. mál
[11:39]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég vil segja það fyrst að að sjálfsögðu er efnisinnihald löggjafarinnar það mikilvægasta. En ég vil líka segja að við ræddum þessi mál í nóvember 2013 þegar við ræddum boðað afturkall löggjafarinnar. Í framhaldinu náðum við sátt um að fresta málinu og við töldum þá sem vorum í nefndinni að sá frestur sem var til 1. júlí 2015 ætti að vera nægjanlegur fyrir ráðuneytið að fara yfir málið, enda var hv. umhverfis- og samgöngunefnd búin að fara mjög vel yfir málið undir forustu hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar. Við vorum m.a. búin að fara mjög vel yfir þá efnisþætti sem ég nefndi hér áðan, ég nefndi þó ekki ágengar tegundir og utanvegaakstur, sem voru þeir tveir efnisþættir til viðbótar sem ég hefði viljað nefna sem stóðu hvað hæst í þessu máli. Ég taldi því satt að segja að það yrði hægur vandi fyrir ráðuneytið að skoða þá efnisþætti sem er gerð góð grein fyrir í ítarlegu áliti nefndarinnar frá þessum tíma, og skila tillögum sínum og kynna þær fyrir hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Ég taldi satt að segja að tíminn hefði verið nógur og tíminn er sannarlega nógur núna ef ætlunin er að fresta gildistöku til 15. nóvember því að ég tel að efnisleg umfjöllun hafi verið nokkuð góð undir forustu hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar á síðasta þingi. Og svo fremi sem við höldum þræði í þeirri vinnu sem þar var hafin ætti tíminn að duga til þess að ljúka við að staðfesta náttúruverndarlög á þeim tíma sem nú er lagt til og gera það þannig að öllum ætti að vera sómi að því.