144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

meðferð elds og varnir gegn gróðureldum.

512. mál
[12:20]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Ég vil bara að nefna það eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir gerði, að það er alltaf verið að troða inn í lög ákvæðum um fangelsisrefsingar, eins og í þessi lög. Fangelsisrefsingar eiga miklu fremur heima í almennum hegningarlögum. Ef menn brjóta af sér eins og til dæmis með sinubruna getur legið tveggja ára fangelsisrefsing við því. Það er nú nokkuð sem við ættum velta fyrir okkur. Ég var með breytingartillögu við það. Ég hef ekki komist í allar atkvæðagreiðslur núna undanfarið ef þær hafa verið að morgni til því að sonur minn er veikur heima og ég hef þurft að sinna honum. En ef það er breytingartillagan mín sem liggur fyrir núna, ég á eftir að skoða það, þá hvet ég menn til þess að samþykkja hana og fella fangelsisrefsingar úr því frumvarpi sem verið er að reyna að troða í lög. Fangelsisrefsingar eiga heima annars staðar. Ef menn brjóta af sér með sinubruna þannig að þeir valda skaða á eigum fólks eða leggja fólk í hættu á slíkt klárlega á heima í almennum hegningarlögum og getur varðað fangelsisrefsingu í stað þess að slík ákvæði finnist í þessum lögum að heimilt sé að setja fólk í tveggja ára fangelsi fyrir sinubruna.