144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:04]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi biðjast afsökunar á því að hafa ekki verið hér þegar þetta mál var komið á dagskrá. Eins og öllum er ljóst er beðið í marga daga eftir því að fá að mæla fyrir nefndaráliti eða málum en svo eru þau afgreidd hratt í gegnum þingið. Það gerðist einmitt eftir hádegishlé, ég var í persónulegum erindagjörðum fjarri Alþingishúsinu. En hér er ég komin til þess að mæla fyrir nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar. Undir nefndarálitið skrifa ásamt mér hv. þingmenn Guðlaugur Þór Þórðarson, Willum Þór Þórsson, Haraldur Benediktsson, Karl Garðarsson og Valgerður Gunnarsdóttir.

Ég vil í upphafi segja, því að svo virðist sem minni hlutinn hafi ákveðið að gera sér einhvern pólitískan mat úr þessari ríkisfjármálaáætlun, að ástandið í þinginu á þessum þingvetri hefur verið svo slæmt hvað varðar að koma málum áfram að það er 1. júlí á morgun og verið er að ræða ríkisfjármálaáætlun, sem átti að vera löngu afgreidd og komin á sinn stað í næstu fjárlagavinnu.

Mig langar til að segja áður en lengra er haldið að nú er verið að klára vinnu við fjárlög fyrir árið 2016 og þau verða lögð fram eftir rúma tvo mánuði, annan þriðjudag í september. Ég skil því eiginlega ekki af hverju verið er að blása þetta út og tala um að þetta sé byggt á óraunhæfum áætlunum. Þetta var raunverulega núllpunktur eins og hæstv. fjármálaráðherra sá þessa þingsályktunartillögu, vegna þess að þetta er nýtt, og svo er verið að kvarta yfir því að ekki sé faglega tekið á málunum. Þetta er alveg splunkunýtt, virðulegi forseti, því að þetta var sett inn í þingsköp, þetta er prufukeyrsla á þessu fyrirkomulagi. Ég hef efast um það í þessum þingsal að verði frumvarpið um opinber fjármál einhvern tímann að lögum, minni hlutinn stoppaði það á þessum þingvetri, þá er kveðið á um að það eigi að leggja fram þingsályktunartillögu um ríkisfjármálaáætlun, í raun langtum nákvæmari ríkisfjármálaáætlun en kveðið er á um í þingsköpum, þá skal fjármálastefnan mótuð að vori og kláruð á vorþingi, þá á að setja inn fjármagn sem fer í hvern ramma og hvert svið, en eins og staðan hefur verið á þinginu á þessum þingvetri efast ég um að þingið sé í stakk búið til að takast á við nákvæmlega það sem það felur í sér. Mér er það til efs miðað við hvernig þetta hefur gengið í vetur.

Þetta verð ég að segja, virðulegi forseti, því að það er ekki hægt að þingið sé að setja lög sem kveður á um hina og þessa málsmeðferð og kveður á um hina og þessa skyldu framkvæmdarvaldsins að leggja fyrir þingið, ef þingið er svo algjörlega ófært um að taka við málunum og framfylgja þeim í þinginu, samþykkja þingsályktanir eða á annan hátt koma með mál fyrir þingið. Það er 1. júlí á morgun og þetta er svo sannarlega ekki eina málið sem hefur fallið á tíma út af því málþófi og málæði sem hefur átt sér stað hér. Það hefur verið talað í hátt í fimm daga um fundarstjórn forseta, hátt í fimm heila vinnudaga um fundarstjórn forseta. Hvernig í ósköpunum á að vera hægt að koma málum áfram í þinginu ef allir dagskrárliðir eru misnotaðir á þennan hátt? Það er rosalega sláandi hvernig þessi þingfundur hefur farið, svo sem án rökstuðnings nema þá til að beita meiri hlutann þingofbeldi.

Nú ætla ég að fara yfir þetta nefndarálit. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra lagði fram þessa þingsályktunartillögu og gekk hún til fjárlaganefndar hinn 28. apríl. Eins og ég fór yfir áðan er þetta í fyrsta sinn sem tillaga af þessu tagi er lögð fyrir Alþingi og er með henni verið að uppfylla ákvæði í 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis. Í 6. mgr. 25. gr. laganna er tiltekið að leggja skuli tillögu fyrir Alþingi, eigi síðar en 1. apríl ár hvert, til þingsályktunar um meginskiptingu útgjalda fjárlaga næsta fjárlagaárs svo og greinargerð um breytingar á tekjuöflun ríkisins. Með tillögunni skal fylgja áætlun um ríkisfjármál næstu þriggja ára þar á eftir.

Þarna fer ég yfir þau lagaákvæði sem kveða á um þessa skyldu.

Virðulegi forseti. Þegar hv. þingmenn eru allir að breyta þingskapalögum í þessa átt fylgir því ábyrgð og skylda. Það má alveg segja sem svo að verið sé að reyna að ónýta þetta mál hér þegar þessi frumraun er keyrð í gegnum þingið í fyrsta sinn með alls konar útúrdúrum og útúrsnúningum.

Hvernig verður það þegar þetta verður orðið lögbundið, eins og segir til í frumvarpinu um opinber fjármál? Verða þingmenn tilbúnir til þess að taka þá ábyrgð og skyldu á sig að ræða það á málefnalegan hátt eða ekki? Þetta er spurning sem við verðum að skilja eftir inn í þetta sumar, sem er sem betur fer komið.

Nefndin hefur jafnframt haft til umfjöllunar frumvarp til laga um opinber fjármál, af því að hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir var að kvarta yfir vinnuálagi í fjárlaganefnd. Fjárlaganefnd tókst alveg stórkostlega að halda á öllum þessum málum. Það var kvartað yfir því að þessi þingsályktunartillaga hefði ekki fengið nægilega umræðu í fjárlaganefnd. Ég verð því miður að vísa því til föðurhúsanna. Í fyrsta lagi var fjárlaganefnd að flýta fyrir sér vegna þess að til stóð að gera frumvörp um opinber fjármál að lögum og samhliða að afgreiða þessa tillögu fyrir sumarbyrjun, sem byggir á þingskapalögum. Maður hélt að þingið væri fært um að taka þessi mál í réttri röð en örlög frumvarpsins um opinber fjármál eru þau að þau eiga að bíða haustsins til að sé hægt að fara af stað með þau aftur í ágreiningi og þetta mál er verið að afgreiða 30. júní 2015 þegar átti að vera búið að samþykkja þessa þingsályktunartillögu fyrir lifandis löngu.

Uppbygging þessarar áætlunar er með þeim hætti að ítarlega er gerð grein fyrir þjóðhagsforsendum og þeim efnahags- og skattaaðgerðum sem núverandi ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir. Farið er yfir forsendur og viðmið fyrir afkomuþróun og gerð grein fyrir margvíslegum óvissuþáttum sem geta haft veruleg áhrif á áætlunina. Þarna kemur það fram sem tönnlast hefur verið á svo lengi, það eru margir óvissuþættir í efnahagslífi þjóðarinnar þegar þessi tillaga er samin. Þá er ég að vísa til stöðunnar á vinnumarkaðnum og ég er að tala um losun hafta. Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar vita ósköp vel að þegar þetta plagg var samið, í mars á þessu ári, var ekki vitað hvernig færi um þessi tvö veigamiklu mál í íslensku samfélagi. Það væri mjög óábyrgt af fjármálaráðherra þjóðarinnar að koma með þingsályktunartillögu um ríkisfjármálaáætlun byggða á gríðarlegum væntingum sem ekki væri hægt að standa við.

Virðulegi forseti. Ég styð stefnu núverandi ríkisstjórnar að vera með hógværar áætlanir og vera ekki að eyða um efni fram, en gangi betur í þjóðarbúskapnum kemur það þjóðarbúinu öllu til tekna með meiri afgangi af ríkissjóði og með frekari og hraðari skuldalækkun ríkissjóðs. Nóg er nú samt, því að eins og kemur fram í þessu plaggi á bls. 2 hefur íslenski ríkissjóðurinn innt af hendi hvorki meira né minna en 580 milljarða bara í vexti frá bankahruninu 2008 — 580 milljarða. Allt í erlendum gjaldeyri sem við höfum meira og minna að láni. Það er því orðið tímabært að taka til í ríkisfjármálunum og fara að borga hratt niður skuldir ríkissjóðs.

Þessi ríkisfjármálaáætlun gerir ráð fyrir því að hlutfall heildarskulda ríkissjóðs af landsframleiðslu fari lækkandi, verði í árslok 2015 um 68% en fari niður fyrir 50% í lok árs 2019. Þetta er stórkostleg framtíðarsýn og ég hef fulla trú á því að hægt sé að standa við þá framtíðarsýn sem kemur fram í þingsályktunartillögunni, vegna þess að nú hefur komið í ljós hversu vel ríkisstjórnin hefur staðið að því að gera upp við þrotabú gömlu bankanna.

Það er líka jákvætt, en þessi lækkun stafar einnig og kannski að stærstum hluta af vexti landsframleiðslu, að nafnvirði skuldanna lækkar innan við 10% á árunum 2016–2019 samkvæmt spánni, en eins og ég fór yfir áðan eru allar líkur á því að hægt sé að lækka skuldirnar enn hraðar.

Ég ætla ekki að fara sérstaklega yfir þetta nefndarálit vegna þess að ég ætla ekki að tefja tímann frá þinglokunum sjálfum. Fjallað er um forsendur og horfur tekjuáætlunar og gjaldaáætlun, sérstaklega á tekjuhliðinni. Gert er ráð fyrir að ágætur hagvöxtur muni halda áfram á næstu fjórum árum sem gefi svigrúm til þess að draga úr flækjustigi skattkerfisins samhliða því að skattar lækki á heimili og atvinnulíf. Jafnframt er stefnt á enn frekari lækkun tryggingagjalds og að tollar verði endurskoðaðir. Áfram verður unnið að áformum um lækkun og breytingar á tekjuskattsþrepum og tekjuskatti einstaklinga. Svo eru útgjöldin sundurliðuð á gjaldahliðinni samkvæmt hagrænni skiptingu, þ.e. í rekstrargjöld, fjármagnsgjöld, tilfærslur, viðhald og fjárfestingu. Svo er hér ágætistafla, yfirlitstafla á bls. 2. Fólk getur nálgast þetta nefndarálit á vef Alþingis og hvet ég fólk til þess því að þar er sýnt fram á hvernig þróunin verður til ársins 2019.

Meiri hluti fjárlaganefndar telur brýnt að fyrirætlan um rekstrarafgang næsta árs gangi eftir og væntir þess að forsendur fjárlagafrumvarps 2016 byggist á þessari ríkisfjármálaáætlun eins og hún var skrifuð þegar hún var skrifuð, vegna þess að svo margir jákvæðir þættir hafa komið til framkvæmda síðan hún var skrifuð. Ég fagna því einnig hvað það komu jákvæðar horfur út úr lokafjárlögunum 2014 og ríkisendurskoðandi var að skila skýrslu um það, sem var stórkostlegur árangur og enn meiri afgangur af ríkissjóði en gert var ráð fyrir.

Við í meiri hlutanum leggjum til að framvegis verði gengið skrefi lengra í skiptingu útgjaldaramma og honum ekki aðeins skipt upp eftir hagrænni skiptingu heldur einnig á hvert ráðuneyti og málaflokka þeirra eins og til stendur, verði frumvarpið um opinber fjármál að lögum fyrir áramót á þessu ári, þá getur hæstv. fjármálaráðherra lagt fram þingsályktunartillögu þessa efnis og nýtt mat strax í byrjun næsta árs og þá verður getið um hverjir þessir rammar eru og hvernig þeir skiptast. Það var ekki mögulegt í þessari frumraun hér, enda ekki kveðið á um það nákvæmlega í þingsköpum.

Við í meiri hlutanum leggjum til að tillagan verði samþykkt óbreytt, enda leggjum við á það áherslu að hér er einungis um stöðumat að ræða þegar tillagan var samin og lögð fram í þinginu. Síðan þá eru nokkuð margar vikur svo við leggjum til að þessi tillaga verði samþykkt óbreytt. Við bendum jafnframt á að nú sér stað mikil vinna í bæði fagráðuneytunum og fjármálaráðuneytinu sem snýr að því að leggja fram frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2016, þá getum við séð hvernig ráðstöfunum verður háttað í fjárlögunum og hvernig árið 2016 kemur til með að líta út. Ég minni aftur á að þetta er núllpunktagreining. Þessa þingsályktunartillögu verður samkvæmt lögum að leggja fram uppfærða á hverju einasta ári og þegar eins mikill árangur næst í ríkisfjármálum og náðst hefur á þessum tveimur árum síðan þessi ríkisstjórn tók við eru auðvitað hraðar og tíðar breytingar, sem koma fram í næstu þingsályktunartillögu um ríkisfjármálaáætlun.