144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:24]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. formaður fjárlaganefndar hættir ekki að koma manni á óvart. Ég vil byrja á að minna hv. þingmann á að minni hlutinn leggur til að þetta mál komi ekki til afgreiðslu núna heldur verði það dregið til baka og unnið betur.

Þannig er mál með vexti að verið er að leggja undir atkvæði þingsins nákvæmlega þetta, að hækki laun ríkisstarfsmanna meira en um 2% yfir verðbólgu verði skorið niður í ríkisstarfseminni á móti. Það er tillaga sem leggja á fyrir þingið síðar í dag og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir lætur eins og hún geti ekki tjáð sig um málið — ég skildi hana nú ekki almennilega. En þetta er tillaga sem lögð er fyrir þingið sem menn annaðhvort samþykkja eða ekki. Sama er með bætur almannatrygginga. Þar er bókstaflega gert ráð fyrir því að gengið sé gegn 69. gr. laga um almannatryggingar vegna þess að þar er gert ráð fyrir 1% hækkun umfram verðbólgu, en 2% kjarabótum launa umfram verðbólgu og að verðbólgumarkmið verði 2,5%. (Forseti hringir.)

Virðulegur forseti. Hv. þingmenn verða (Forseti hringir.) að gera það upp við sig hvað þeir ætla að gera. Hér er verið að leggja til (Forseti hringir.) að þessi þingsályktunartillaga verði samþykkt óbreytt og hv. formaður fjárlaganefndar hefur ekki hugmynd um hvað hún er að fara að samþykkja á eftir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)