144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn og aftur, þetta mál átti að vera löngu afgreitt frá þinginu. Málið er hjá þinginu. Meiri hluti fjárlaganefndar sá enga ástæðu til þess að gera breytingartillögur við þessa þingsályktunartillögu. Ég ítreka að það eru ekki neinar breytingartillögur við þetta svokallaða vonda mál, eins og stjórnarandstaðan kallar það, frá henni sjálfri. Er ekki lágmark, virðulegi forseti, þegar rosaleg gagnrýni stendur út úr fólki á öll þessi mál, að gera þá alla vega tilraun til þess að koma með breytingartillögur við málin og freista þess að fá þær samþykktar, að leita stuðnings við þær breytingartillögur hér í þingsölum?

Eins og ég segi er hægt að standa hér og hrópa á torgum um að allt sé ómögulegt og tæta allt og rífa niður, og koma svo ekki með neinar tillögur. Það er nú lágmark þegar gagnrýnin er slík að þá sé reynt að koma með eitthvað til þess að bæta hin svokölluðu slæmu mál að mati stjórnarandstöðunnar. Það fyrirfinnst ekki neitt, ekki nokkur einasti hlutur, enda eru, eins og ég segi, tveir af fjórum stjórnarandstöðuflokkum nýkomnir út úr ríkisstjórn og það fór nú eins og það fór.

Hér er verið að spyrja um lífeyrisskuldbindingar opinberra starfsmanna. Það hefur verið mér mikið áhyggjuefni allt frá því að ég fór að skoða þessi mál þegar ég settist á þing hvað þær eru háar, hátt í 500 milljarðar. Það er stefna þessarar ríkisstjórnar, eins og birtist í þessari ríkisfjármálaáætlun, að fara að greiða inn á þessar lífeyrissjóðsskuldbindingar, því að ekki gerði síðasta ríkisstjórn það, þá var bara látið reka á reiðanum og ekkert gert í því. Nú er verið að taka á því, en meira að segja það er gagnrýnt úr þessum ræðustól. Ég verð að svara þessu með S-merktu lyfin í seinna andsvari.