144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru því miður ekki greidd atkvæði um nefndarálit í þinginu. Það eru greidd atkvæði um breytingartillögur sem liggja fyrir á þingskjölum, þannig að það sé sagt. Slíkt er ekki að finna í þingskjölum (Gripið fram í.) með þessu máli. Ég ætla að fara einu sinni enn yfir þetta til að reyna að útskýra á mannamáli hvað verið er að gera.

Samningar hafa náðst við kröfuhafa. Þeir hafa tvær leiðir til að velja um. Þegar það samkomulag er í höfn og þessi mál verða farin í gegnum þingið munu vaxtagjöld ríkissjóðs líklega lækka um 35–40 milljarða á ári. Þau eru um 85 milljarðar á ári núna, óásættanlega há tala. Þegar það verður komið til framkvæmda skapast svigrúm fyrir ríkissjóð upp á 35–45 milljarða til að ráðstafa fé í grunnþjónustuna eins og í S-merkt lyf, eins og heilbrigðisþjónustu, eins og flugvelli, eins og samgöngumál, til þess að koma til móts við vöntunina þar. Ég vona að ég hafi útskýrt þetta hér í eitt skipti fyrir öll.