144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:47]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Eins og fram hefur komið í umræðunum eru ákaflega stórir óvissuþættir í þessari þingsályktunartillögu sem ekki er tekið á, þeir eru skildir eftir og sagt sem svo að þarna séu ákveðnir óvissuþættir. En núna er búið að gera kjarasamninga. Kjarasamningur er einn af óvissuþáttunum. Skattalækkanir eru að vísu svipaðar en greinilega öðruvísi reiknaðar, sem komu með kjarasamningunum, og síðan eru það áhrifin sem losun hafta hefur á ríkisfjármál næstu ára. Þarna eru stórir þættir sem ekki er tekið á og þess vegna hefur minni hluti fjárlaganefndar lagt það til, bæði í nefndinni við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og í framhaldsnefndaráliti sínu, að málið komi ekki til afgreiðslu á yfirstandandi þingi heldur verði lagt fram að nýju þegar hægt er að meta þessa stóru þætti betur. Samkvæmt þingskapalögum á að leggja hana fram, það segir ekkert um afgreiðsluna. Við í minni hluta fjárlaganefndar munum hafa fullkominn skilning á því að hér séu það stórir óvissuþættir undir að hægt sé að réttlæta það að láta þingsályktunartillögu ekki ganga svona ófullbúna til afgreiðslu. En það er hins vegar ekki það sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og meiri hluti fjárlaganefndar vill. Þau leggja til að þingsályktunartillagan verði samþykkt óbreytt. Ég vil, með leyfi forseta, lesa hana upp.

„Alþingi ályktar, sbr. 6. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, að stjórnvöld fylgi stefnumörkun um ríkisfjármál fyrir árin 2016–2019 samkvæmt eftirfarandi yfirliti um áformaða afkomu- og skuldaþróun þar sem fram kemur áætlun um tekjuöflun ríkisins og meginskiptingu útgjalda (ramma) fyrir fjárlagaárið 2016 og næstu þrjú ár þar á eftir á grundvelli þeirra forsendna sem ríkisfjármálaáætlunin er reist á.“

Þetta er það sem verður borið undir atkvæði. Síðan koma forsendurnar og það er tíundað, á bls. 24 er talað um ýmsa óvissu- og áhættuþætti. Við hljótum að spyrja: Er það tæmandi? Eru það atriðin sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra er ekki bundinn af? Þar er talað um kjarasamninga. Þar er talað um lífeyrisskuldbindingar B-deildar Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna, tryggingafræðilega stöðu A-deildar, það er talað um útistandandi ríkisábyrgðir vegna Íbúðalánasjóðs og það er talað um ábyrgðir vegna nokkurra annarra aðila, svo sem Landsvirkjunar, Byggðastofnunar, Farice og RÚV. Framtíðarskipan Íbúðalánasjóðs, það er einn óvissuþátturinn, vaxtakjör ríkissjóðs á innlendum og erlendum mörkuðum og svo tekjutapið eða mótvægisaðgerðir vegna efnahagslegra áfalla á borð við aflabrest í sjávarútvegi, raskanir eða samdráttur í ferðaþjónustu o.s.frv.

Þetta eru óvissuþættirnir sem eru taldir upp og á einum stað er talað um losun fjármagnshafta. Við hljótum að segja, sem eigum að greiða atkvæði um þessa þingsályktunartillögu: Þetta eru þá atriðin sem við þurfum ekki að horfa sérstaklega á en við eigum að horfa á önnur stefnumið, eins og meiri hluti fjárlaganefndar leggur áherslu á í framhaldsnefndaráliti sínu, að ekki sé vikið frá þeim stefnumiðum sem fram koma í ríkisfjármálaáætluninni.

Nú vil ég enn einu sinni, frú forseti, benda á að það er á bls. 35 í ríkisfjármálaáætluninni, sem á að ganga til atkvæða að mér skilst síðar í dag, talað um að launastefnan varðandi laun ríkisstarfsmanna eigi að vera sú að ef launahækkunin verður meira en 2% umfram verðbólgu eigi að skera niður. Þannig er gert ráð fyrir að launahækkanir innan þessara marka rúmist innan útgjaldaramma áætlunarinnar en að hækkunum umfram það þurfi að mæta með viðeigandi gagnráðstöfunum til lækkunar á launakostnaði, svo sem með samdrætti, starfsmannafjölda eða vinnumagni og þess háttar. Það er sem sagt verið að segja: Verði kaupmátturinn meiri en 2% á ári verður skorið niður í þjónustu ríkisins á móti. Þar eru stærstu póstarnir og stoðirnar heilbrigðiskerfið og skólakerfið. Auðvitað eru þetta stórar spurningar og mikilvægt að þingmenn, þegar þeir ganga til atkvæða, átti sig á því að þeir eru að samþykkja þetta og binda hendur hæstv. ráðherra þegar þeir búa til fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2016. Sama er með bætur almannatrygginga.

Mér finnst, þótt af mörgu öðru sé að taka, þetta vera stóru málin tvö sem eru mjög skýr sem stefnumið þessarar ríkisstjórnar, þ.e. að halda þeim sem þurfa að reiða sig á bætur neðar en öðrum í launaþróun. Það á að halda þeim í fátæktargildru. Það er þannig sem verið er að hugsa þetta mál og það (Forseti hringir.) er, virðulegur forseti, algjörlega óásættanlegt.

Og enn og aftur: Ef þingmenn samþykkja þessar forsendur (Forseti hringir.) eru þeir að samþykkja að ganga gegn 69. gr. laga um almannatryggingar. Ég vona að hv. þingmenn, (Forseti hringir.) stjórnarþingmenn viti þetta og átti sig á því, að vísu er einungis einn þingmaður hér í salnum, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, og ég veit að hún skilur þetta ekki. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)