144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

lögræðislög.

687. mál
[15:36]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að gera grein fyrir fyrirvara minni hlutans í þessu máli, en hann skipa hv. þingmenn Guðbjartur Hannesson og Helgi Hrafn Gunnarsson ásamt þeirri er hér stendur. Fyrirvarinn lýtur að því að við teljum að ekki eigi að tiltaka einhvern sérstakan geðsjúkdóm, eins og kemur fram í b-lið 1. gr. frumvarpsins, þegar um er að ræða að skilyrða þurfi vegna sviptingar á lögræði. Það er margt annað sem getur komið til þegar að svipta þarf fólk lögræði og okkur þykir svolítið sérstakt að þá sé í rauninni einungis einn sjúkdómur tilgreindur í lögunum. Það var rætt nokkuð en ekki náðist samstaða um það að öllu leyti.

Gestir sem komu fyrir nefndina, sem hafa reynslu af þessu málum, þekkja vel til og starfa á þessum vettvangi, ræddu mikið um það þegar beita þarf þvingunarúrræðum sem felast í því að fara inn á heimili fólks við sjálfræðissviptingu eða nauðungarvistun. Þangað kemur lögreglubíll jafnvel með ljósum og einkennisklæddir lögreglumenn stíga út. Þetta verður heilmikill, dramatíseraður atburður í ofanálag við þá niðurlægingu og ömurlegu staðreynd sem felst í því þegar gripið er til þess að svipta einhvern sjálfræði eða að nauðungarvista.

Við ræddum líka töluvert í nefndinni um félagslegt teymi sem hefur verið prófað aðeins hér á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. að slíkt teymi komi inn á heimili fólks og að slíkar aðferðir séu reyndar áður en kemur til þess að svona harkalegum úrræðum sé beitt. Eins varðandi eftirfylgni, að ef til nauðungarvistunar kemur sé hægt að ganga að einhverju slíku úrræði þegar fólk kemur út aftur, en heilu fjölskyldurnar eru oft í miklum sárum.

Eins og hv. þingmaður og formaður allsherjar- og menntamálanefndar kom inn á er auðvitað mikið óunnið við endurskoðun laganna. Við erum sammála því og hefðum kosið að þetta mál yrði látið bíða haustsins eða jafnvel að árið fengi að líða og að unnið yrði áfram að málinu. Því er ekki að leyna að hér er verið að búa til ákveðinn kostnað fyrir sveitarfélögin því að það eru þau sem þurfa að sinna því hlutverki að taka þessar ákvarðanir. Þau þurfa að vera með sólarhringsfélagsþjónustu alla daga ársins. Þegar sækja þarf um sjálfræðissviptingu eða eitthvað slíkt eru það sveitarfélögin sem koma að því. Ekki er reiknað með þeim kostnaði sem til fellur vegna þess að það er jú bara hér á höfuðborgarsvæðinu sem slík þjónusta er til staðar, en sveitarfélögin úti á landi bentu á að hún væri ekki til staðar.

Við og þeir aðilar sem gagnrýndu þetta frumvarp mátum það sem svo að það væri að mörgu leyti betra að stíga skrefið frekar en ekki fyrst ákveðið var að leggja málið fram. Þess vegna ákváðum við að vera á álitinu þrátt fyrir að vera með þennan fyrirvara. Það sem er nýtt líka hér er að gert er ráð fyrir að þetta verði endurskoðað að tveimur árum liðnum. Það er mikilvægt að endurskoða og meta hvort nægjanlega vel hafi tekist til, sérstaklega þegar verið er að leggja til einhverjar breytingar á lögum sem varða svo viðkvæm málefni eins og hér er um að ræða, ekki bara er varðar nauðungarvistun heldur líka varðandi skráningar og birtingu úrskurða og fleiri þátta.

Við ræddum líka nauðungarvistun og eins og formaður nefndarinnar kom vel inn á fór mestur tíminn í að ræða það mál. Við vildum skoða þann möguleika hvort sjúkraflutningamenn ættu frekar en lögreglan að koma að málum þegar verið væri að fara inn á heimili. Það eru réttmætar ábendingar og kannski lítur fólk það öðrum augum að fá sjúkraflutningafólk heim en ef lögreglan kemur í einkennisbúningi á blikkandi bílum. En það fólk er auðvitað ekki þjálfað til að takast á við þær aðstæður sem upp geta komið. Þess vegna skilur maður að það er kannski ekki alltaf hægt að gera það. En auðvitað ætti það að vera þannig og hefur verið í einhverjum mæli að lögreglan mætir óeinkennisklædd á vettvang. Það ætti að vera sem oftast þannig þegar svona alvarlegt inngrip þarf að eiga sér stað. Nefndin ítrekar mikilvægi þessa út frá nærgætni og tillitssemi eins og hægt er að koma við hverju sinni gagnvart hlutaðeigandi.

Það var annað stórt atriði sem mér þykir við hafa náð fram hér, það var mjög mikið rætt og hafa verið skiptar skoðanir um það, þ.e. hver það er sem undirritar beiðni um nauðungarvistun eða sjálfræðissviptingu, að það þurfi ekki að vera ættingi. Fólk hefur misjafna reynslu af slíku. Það hefur iðulega skilið eftir sár, jafnvel í langan tíma og sums staðar hefur aldrei gróið um heilt þegar foreldri eða forráðamaður hefur þurft að nauðungarvista einhvern sér nákominn, þá jafnvel bara vegna þess að foreldrið sá enga aðra leið og kerfið tók ekki við þeim veika nema vegna þess að aðstandandi kvittaði undir.

Nú er það fært yfir til félagsnefnda sveitarfélaganna eða þeirra starfsmanna sem þar koma að. Fjölskyldur geta ekki beðið um slíka nauðungarvistun. Fyrir mér er það eitt af því stóra sem gerðist í þessu máli og gestir okkar, að minnsta kosti þeir sem hafa persónulega reynslu og þekkja til, töldu að þetta væri eitt af því sem skipti gríðarlega miklu máli við að afgreiða málið núna.

Að lokum langar mig að nefna varðandi í d-lið 16. gr., um ráðgjöf og stuðning í framhaldi og kjölfar nauðungarvistunar, að heilbrigðisráðherra á að setja reglugerð er lýtur að því. Ég tel að það sé afar mikilvægt nú þegar lögin verða staðfest, að við í allsherjar- og menntamálanefnd fylgjum því eftir að sú reglugerð verði sett sem styðja á við þetta nýja verklag sem lýtur í rauninni að öllum þessum þáttum sem hér eru undir. Heimildin hefur verið til staðar í lögunum en í rauninni hefur hún ekki verið nýtt til setningar á reglugerð.

Svo er það dómaraúrskurður varðandi framlenginguna sem fram kemur í 17. gr. að það er einungis í eitt sinn sem hægt er að framlengja í 12 vikur þegar búið er að nauðungarvista í 21 sólarhring frá dagsetningu sýslumanns. Það var líka töluvert rætt að það yrði ekki gert bara sisvona og var lögð mikil áhersla á að reyna að tala við þann veika og ná samkomulagi áður en gripið yrði til slíkrar langrar nauðungarvistunar. Því miður er það svo að lögræðissvipting hefur hangið inni í kerfinu í fjöldamörg ár og einhvern veginn hefur enginn fylgt því eftir, að jafnvel þótt viðkomandi sé kominn til heilsu á ný eða sé alla vega ekki inni á spítala eða stofnun hefur hann í rauninni ekki lögræði. Það er auðvitað mjög bagalegt. Verið er að skerpa á því eftirliti sem þarf að vera í þessu með því að vista það hjá Þjóðskrá, þannig að ég vona að það sé til bóta og að við þurfum ekki að heyra það einhvern tímann þegar málið kemur til endurskoðunar síðar að slíkt sé enn þá við lýði.

Herra forseti. Ég ætla svo sem ekki að ræða þetta neitt meira. Hér er um mikilvæg persónuleg réttindi að ræða og þetta er afar viðkvæmt mál verið sem verið er að setja lög um. Ég tel að þessi lög séu til bóta og vona að ráðuneyti velferðarmála, heilbrigðisráðherra eða innanríkisráðherra, eða hver það er sem á að sjá um þessi lög, fari í það sem allra fyrst núna á haustdögum að setja reglugerð og að við sjáum að málið verði klárað eins og hér er bent á.