144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

alþjóðleg öryggismál o.fl.

628. mál
[15:57]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. formanni utanríkismálanefndar tilraun hans til að rekja tillögur minni hluta sem var kannski full vel í lagt hjá hv. formanni, en ég mun nú fara yfir þær. Við höfum rætt þetta mál í nefndinni. Eins og kom fram í máli fyrri ræðumanns skilar 1. minni hluti sérnefndaráliti og breytingartillögum. Undir þær skrifa sú sem hér stendur og hv. þm. Óttarr Proppé. Þar eru annars vegar lagðar til breytingartillögur sem miða að því að auka gagnsæi og samráðsskyldu og hins vegar að skilgreina betur hugtakið „þvingunaraðgerðir“ í síðari breytingartillögu. Ég mun aðeins fara yfir rökstuðning fyrir því og fara yfir nefndarálit 1. minni hluta.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á gildandi lögum sem lúta annars vegar að aðgangi erlendra ríkisfara að íslensku yfirráðasvæði og hins vegar innleiðingu alþjóðaskuldbindinga um frystingu fjármuna og aðrar þvingunaraðgerðir. Það er rétt að það komi fram að breytingar hvað varða aðgang erlendra ríkisfara er ekki hægt að kalla róttækar og raunar var það mat eins umsagnaraðila, Isavia, sem annast umsjá flugumferðar, að þarflaust væri að ráðast í slíkar lagabreytingar. Það er mat 1. minni hluta að nýta hefði mátt tækifærið úr því að verið er að gera breytingar á lögum og gera raunverulegar breytingar, þannig að ráðherra verði annars vegar gert skylt að upplýsa utanríkismálanefnd Alþingis um þau leyfi sem hann veitir erlendum ríkisloftförum, en hér liggur fyrir að ráðherra getur lögum samkvæmt ákveðið á hvaða stöðum erlend ríkisloftför geta átt viðkomu og hvernig ferðum þeirra skuli háttað innan íslensks yfirráðasvæðis. Þarna er verið að skerpa á heimild sem er til staðar nú þegar í lögum, en hugmyndin er sú að hér sé aukið gagnsæi skrifað inn í lögin þannig að það verði eðlilegur hluti af slíkum leyfisveitingum að upplýsa utanríkismálanefnd. Hins vegar er lagt til að ráðherra verði gert skylt að hafa samráð við viðkomandi sveitarfélag ef hann hyggst veita erlendu ríkisskipi leyfi til að hafa viðkomu í höfn.

Ástæða þess að 1. minni hluti leggur þetta til er að slík atvik hafa komið upp þar sem sveitarfélög hafa lýst þeirri skoðun sinni að þau óski ekki eftir til að mynda að fá herskip í hafnir sínar. Þau hafa enn fremur lýst sig kjarnorkuvopnalaus svæði og þótt hv. formaður utanríkismálanefndar telji ekki eðlilegt að sveitarfélög reki sjálfstæða utanríkisstefnu þá er það svo að þetta eru mikilvægar ákvarðanir sem koma inn á borð sveitarfélaga þar sem mikilvægustu ákvarðanir sem varða nærsamfélagið eru teknar, því er ekki nema sjálfsögð kurteisi, mundi ég segja, að hæstv. utanríkisráðherra á hverjum tíma hafi samráð við sveitarfélög áður en hann veitir leyfi til þess að viðkomandi skip hafi viðkomu í höfnum þeirra, í ljósi þess að þarna geta auðvitað komið upp árekstrar. Að setja inn slíka samráðsskyldu mundi ég fremur telja breytingu til þess að bæta almenna stjórnsýsluhætti og efla samráð ríkis og sveitarfélaga, sem því miður er allt of bágborið.

Þannig að hér eru þessar tvær breytingartillögur sem fyrst og fremst snúast um aukið samráð, aukið gagnsæi.

Hvað varðar þann hluta frumvarpsins sem lýtur að þvingunaraðgerðum gerir 1. minni hluti athugasemdir við að hér eru notuð hugtökin „ríkjahópar“ og „samstarfsríki“, þ.e. ekki er gerð krafa um að ákvörðun um þvingunaraðgerðir sé tekin á vegum alþjóðastofnana heldur er vitnað til ríkjahópa og samstarfsríkja sem eru óskilgreind. Nú liggur fyrir að meiri hluti hv. utanríkismálanefndar telur að sá skilningur liggi í þessum orðum að þetta séu ríki innan þeirra alþjóðastofnana sem við tilheyrum nú þegar, en ég vil þó nefna það að í 1. umr. um málið á þingi var bent á þá sögulegu staðreynd að slíkur ríkjahópur var einmitt búinn til undir yfirskriftinni bandalag staðfastra þjóða, en mætti líka kalla hann bandalag viljugra þjóða, þegar ráðist var inn í Írak, en sú innrás reyndist feigðarflan eins og hefur komið fram æ síðan og naut einskis stuðnings meðal þjóðarinnar. Þó að ráðherra hafi bent á í þeirri umræðu að hann telji slíkan stríðsrekstur ekki falla undir hugtakið „þvingunaraðgerðir“ hefur hugtakanotkun í alþjóðastjórnmálum gjarnan verið ansi teygjanleg og má kannski segja að þar séu alþjóðastjórnmálin lík innanlandsstjórnmálunum. Þar nægir að nefna loftárásir á Líbíu sem gengu undir nafninu framkvæmd loftferðabanns og mætti því örugglega teygja hugtakið „þvingunaraðgerðir“ þar yfir.

1. minni hluti telur því rétt að það sé fastneglt í lög að slíkar þvingunaraðgerðir séu ekki af hernaðarlegum toga. Það ætti þá að taka af öll tvímæli um það hvað felst í þvingunaraðgerðum og leggur minni hlutinn þess vegna til að á eftir orðunum „þvingunaraðgerðir sem“ í 3. gr. komi: ekki geta talist af hernaðarlegum toga og.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að halda lengri tölu um þetta mál en legg þetta fram og endurtek að undir álitið skrifa hv. þingmenn Katrín Jakobsdóttir, framsögumaður, og Óttarr Proppé.