144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

innflutningur dýra.

643. mál
[16:47]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það var fróðlegt að hlusta á hv. þm. Ásmund Friðriksson fara yfir þetta mál. Ég þakka atvinnuveganefnd fyrir hversu vel hún hefur kafað ofan í mál sem er í eðli sínu mjög flókið. Ljóst er að ákveðnar hættur geta fylgt því að flytja inn erfðaefni af þessum toga, en hv. þingmaður fyrir hönd nefndarinnar telur bersýnilega að það sé í lagi og kom mér svolítið á óvart að nefndin skyldi leggja til að frumvarpið yrði samþykkt óbreytt. Það felur í sér að í lagi er að flytja inn erfðaefni með þeim hætti sem hv. þingmaður lýsti. Þegar gripir eru 9–12 mánaða gamlir má dreifa þeim svo fremi sem búið sé að ganga úr skugga um að þeir séu í lagi hvað sjúkdómahættu varðar og síðan er sömuleiðis lagt fyrir að fylgst verði áfram með sjúkdómum í þeim. En þetta er leið sem menn telja sem sagt í lagi að nota til að flytja inn erfðaefni í nautgripum. Í þessu tilviki er verið að tala um holdanautgripi.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki að með þessu sé líka komin aðferð, sérstaklega eftir að góð reynsla kemst á hana, til að verða við óskum manna um að flytja inn nýtt nautgripakyn til mjólkurframleiðslu.