144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[17:00]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um verndarsvæði í byggð frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar, sem fyrir liggur á þskj. 1440.

Frumvarpinu er ætlað að skapa lagagrundvöll til að tryggja heildstæða vernd byggða á grundvelli varðveislugildis þeirra. Varðveislugildi byggða tekur samkvæmt ákvæðum frumvarpsins meðal annars mið af svipmóti, listrænu gildi og menningarsögu svæðisins. Ákvæði frumvarpsins miða að því markmiði að vernd byggðarheilda verði sérstakt verkefni sveitarfélaga, í samráði við ráðherra sem fer með þjóðmenningarmál.

Í því skyni að tryggja vernd byggðarkjarna eða svæða innan þéttbýlis sem hefur varðveislugildi er lagt til að í kjölfar sveitarstjórnarkosninga skuli sveitarstjórnir taka til skoðunar hvort innan staðarmarka þeirra séu byggðir sem ástæða sé til þess að leggja til við ráðherra að verði gerðar að verndarsvæðum. Lagt er til að Minjastofnun Íslands verði sveitarstjórn til ráðgjafar í þeim efnum en sinni sveitarstjórn ekki þessu verki geti ráðherra falið Minjastofnun það.

Einnig er lagt til að ráðherra geti falið Minjastofnun að útbúa tillögu um að tiltekin byggð, sem að mati ráðherra hefur varðveislugildi á landsvísu, verði gerð að verndarsvæði í byggð. Loks er það eitt af markmiðum frumvarpsins að íbúar og aðrir hagsmunaaðilar fái tækifæri til að koma sjónarmiðum á framfæri áður en ráðist er í framkvæmdir innan verndarsvæðis í byggð sem geta haft áhrif á varðveislugildi þeirra.

Eins og fram kemur í nefndaráliti hefur nefndin fengið til sín gesti frá forsætisráðuneytinu, Skipulagsstofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Þjóðminjasafni Íslands, Minjastofnun, Reykjavíkurborg og ICOMOS-nefndinni. Umsagnir bárust frá 16 aðilum um málið og með málið var unnið á átta fundum.

Í umsögnum og umræðum á fundum nefndarinnar endurspegluðust ólík viðhorf gagnvart frumvarpinu. Beindust þau einkum að útfærslu á samspili verkefna sveitarfélaga og ríkisins. Ólík sjónarmið varðandi frumvarpið má segja að endurspegli í aðalatriðum þrenns konar sýn á efni frumvarpsins. Í fyrsta lagi sjónarmið þeirra sem telja ekki þörf fyrir aukinn lagagrundvöll til að tryggja heildstæða vernd byggða og frumvarpið því óþarft. Í öðru lagi sjónarmið þeirra sem telja þörfina vera til staðar og eru sammála meginmarkmiðinu en vilja fara aðrar leiðir til að tryggja lagagrundvöllinn, svo sem með könnun á því hvort flétta megi verkefnið inn í skipulagslög og /eða lög um minjavernd, og loks sjónarmiðin sem endurspeglast í frumvarpinu um að til að tryggja heildstæða vernd, byggða á grundvelli varðveislugildis þeirra, þurfi sérlög.

Ljóst er að tryggja þarf í sessi þá hugmynd að varðveislugildi felist ekki eingöngu í stökum byggingum eða minjum sem efnislegum hlut heldur geti varðveislugildi falist í samspili ólíkra þátta í umhverfinu, heildarsvip bygginga á tilteknu svæði, ákveðnum sameiginlegum einkennum byggðarinnar og tengslum hennar við staðhætti, umhverfi og söguna.

Frumvarpið gerir ráð fyrir því að ráðherra taki ákvörðun um hvort tiltekinn byggðarkjarni eða svæði innan þéttbýlis verði gert að verndarsvæði í byggð. Nefndin ræddi þetta hlutverk ráðherra í ljósi gagnrýni sem kom fram í umsögnum um málið. Fram kom að líkt og önnur stjórnvöld er ráðherra bundinn af meginreglum stjórnsýsluréttarins, skráðum sem óskráðum, og honum ber að taka ákvarðanir á grundvelli málefnalegra sjónarmiða. Þau viðmið sem ber að taka tillit til við slíka ákvörðun koma fram með skýrum hætti í frumvarpinu. Þá var einnig bent á að hlutverk ráðherra samkvæmt lögunum ætti sér hliðstæðu í öðrum lögum sem miða að vernd menningararfs og náttúru. Meiri hluti nefndarinnar bendir þó jafnframt á að sveitarfélögum er falið mikilvægt hlutverk samkvæmt ákvæðum frumvarpsins og fyrirhugað er að vernd byggða sem hafa varðveislugildi verði að stærstum hluta þeirra verkefni.

Á fundum nefndarinnar var rætt að frumvarpið setur ekki tímaramma um hvenær tillögur um verndarsvæði í byggð skuli hafa verið útfærðar. Meiri hlutinn bendir á að sú vinna getur hafist af hálfu sveitarstjórna nú þegar, en samkvæmt skýru ákvæði frumvarpsins skal hún fara fram eigi síðar en í kjölfar næstu sveitarstjórnarkosninga, sem fyrirhugaðar eru árið 2018, og þá samhliða hefðbundinni yfirferð sveitarfélaga á skipulagsáætlunum og eftir það á fjögurra ára fresti að lágmarki.

Nefndin fjallaði um þau hugtök sem skilgreina efnissvið og markmið laganna. Af hálfu umsagnaraðila var bent á að nákvæmni og samræmi skorti í hugtakanotkun í nokkrum af greinum frumvarpsins og leggur meiri hlutinn því til breytingar til að ráða bót á því með breytingartillögu við 3. og 4. gr.

Af hálfu umsagnaraðila var bent á skort á samráði við íbúa við undirbúning tillagna um verndarsvæði í byggð. Eitt af markmiðum frumvarpsins er að íbúar geti komið sjónarmiðum sínum á framfæri áður en ákvörðun er tekin um verndarsvæði í byggð eða samþykktir settar um vernd svipmóts byggðar. Það er mat meiri hlutans að það sé í anda frumvarpsins að íbúar og áhugafólk hafi frekari tækifæri til að koma að tillögum um verndun byggða þegar þær eru á undirbúningsstigi og leggur meiri hlutinn því fram tillögur þess efnis.

Nefndin fjallaði um þau áform að fella brott hluta ákvæða skipulagslaga, nr. 123/2010, um hverfisvernd, en áformin voru nokkuð gagnrýnd af hálfu umsagnaraðila. Í vinnu nefndarinnar komu fram sjónarmið þess efnis að þrátt fyrir að fyrirhugaðar reglur um vernd byggðar sem hefur varðveislugildi og hverfisvernd sem sveitarfélög taka ákvörðun um í skipulagsáætlunum stefni að stórum hluta að sömu markmiðum sé stigsmunur á milli þessara úrræða. Því er hvorki svo að ákvörðun um verndarsvæði í byggð útiloki ákvörðun um að fjallað sé um hverfisvernd sveitarfélaga í skipulagsáætlun né að ákvörðun um verndarsvæði í byggð útiloki sveitarfélög frá því að taka upp hverfisverndarákvæði í sínum skipulagsáætlunum. Ákvæði í skipulagsáætlun um hverfisvernd getur einnig verið leiðarvísir þegar kemur að mótun tillagna og ákvörðunartöku um verndarsvæði í byggð á grundvelli ákvæða frumvarpsins.

Í samræmi við framangreint leggur meiri hlutinn til að fallið verði frá áformum um breytingar á ákvæðum sem snúa að hverfisvernd samkvæmt skipulagslögum.

Á fundum nefndarinnar var refsiákvæði frumvarpsins rætt. Það er mat meiri hlutans að orðalag ákvæðisins gæti verið skýrara og leggur hann því til orðalagsbreytingu.

Nefndin fjallaði einnig um 5. tölulið 12. gr. frumvarpsins sem gerir ráð fyrir því að 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010, sem kveður á um gerð húsakannana og um hverfisskipulag, falli brott. Fram komu sjónarmið um að húsakannanir gegni mikilvægu hlutverki út frá varðveislugildi bygginga, svæða og hverfa. Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir að í þeim felist mikilvægar upplýsingar þegar kemur að mati á varðveislugildi byggðarkjarna og svæða í byggð.

Meiri hlutinn leggur því til að áfram verði kveðið á um skyldu til að framkvæma húsakannanir við gerð deiliskipulags í byggðu hverfi samkvæmt fyrrnefndu ákvæði skipulagslaga en að aðrir málsliðir þess, sem lúta að hverfisskipulagi, falli brott.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir. Framsögumaður óskar þó eftir því að b- og c-liður breytingartillögunnar verði dregnir til 3. umr. og jafnframt óskar framsögumaður eftir því að málinu verði vísað til nefndarinnar á milli umræðna. Þessir tveir liðir varða húsakönnun og hverfisskipulag og óskar framsögumaður eftir því að nefndin yfirfari betur ákvæði er snúa að hverfisskipulagi milli umræðnanna. Af því leiðir að breytingin sem gerð er grein fyrir í nefndarálitinu varðandi húsakönnun kemur ekki til atkvæða fyrr en við 3. umr.

Undir álitið rita hv. þingmenn Unnur Brá Konráðsdóttir formaður, Líneik Anna Sævarsdóttir framsögumaður, Elsa Lára Arnardóttir, Vilhjálmur Árnason og Jóhanna María Sigmundsdóttir.