144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[17:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Eins og fram kom í ræðu minni áðan snúast mismunandi sjónarmið varðandi frumvarpið einmitt um hvort þörf sé fyrir þessa leið. Grundvöllurinn að frumvarpinu og tilefnið er að varðveislugildi felist ekki eingöngu í stökum byggingum eða minjum sem efnislegum hlut, heldur geti varðveislugildið falist í samspili ólíkra þátta í umhverfinu, sem sagt í heildum og þá heildarsvip bygginga á tilteknum svæðum og sameiginlegum einkennum byggðarinnar, tengslum við umhverfi, staðhætti, söguna, og því að varðveita heildarmyndir. Við getum tekið sem dæmi gamlar verslunarhúsasamstæður í einstökum smáum byggðarkjörnum úti um landið. Í umfjöllun um frumvarpið hefur komið fram smá misskilningur, að það gæti ekki átt við um byggðarkjarna í dreifbýli, en það getur vel átt við það, til dæmis gamalt íbúðarhús ásamt útihúsum ef sú heild hefur varðveislugildi í sjálfu sér. Frumvarpið byggir á því að mikil verðmæti felist í því að varðveita heildir af þessu tagi á meðan þau sjónarmið komu vissulega fram að engin þörf væri á því, það væri nægilega vel tryggt. En því lengur sem ég vinn með frumvarpið því sannfærðari verð ég um að þarna komum við með nýtt verkfæri sem ekki er til staðar í núgildandi lögum.