verndarsvæði í byggð.
Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Ég get tekið undir það með fyrirspyrjanda og það kom ítrekað fram fyrir nefndinni að ákvæði varðandi hverfisskipulag sem komu inn með síðustu breytingum á skipulagslögum tækju yfir þetta hlutverk. En vinnan og athugasemdir sem nefndin hefur fengið, bæði áður og eftir að nefndarálitið var afgreitt, hafa leitt til frekari skoðunar á því að ákvæði um hverfisskipulag taka ekki yfir þau markmið sem ætlunin er að ná fram með þessu frumvarpi. Hverfisskipulag, eins og það er hugsað og eins og það er útfært í skipulagsreglugerð, nær miklu frekar til þess að samræma fyrirliggjandi deiliskipulag í tilteknu hverfi eða samræma heildaryfirbragð með hliðsjón af fyrirliggjandi deiliskipulagi og hugsanlega öðru svæði sem aldrei hefur verið deiliskipulagt. Maður getur hugsað það eins og maður raði saman tíu mismunandi litum legókubbum, sumir hafa verið deiliskipulagðir, aðrir ekki, og þegar þetta kemur allt saman er maður kominn með hverfisskipulag sem er þá einhvers konar millistig á milli deiliskipulags og aðalskipulags og kannski betra verkfæri fyrir sveitarfélögin til að ná utan um hverfisheildir þar sem skipulag er mislangt unnið.