144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[17:23]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Við í umhverfis- og samgöngunefnd vorum beðin um að líta á vissa efnisþætti málsins. Við gerðum það og fengum aðila á okkar á fund, en sáum ekki tilefni til þess að senda frá okkur sérstakt nefndarálit. Ég vil lýsa yfir stuðningi við álit meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar sem hafði þetta mál til umfjöllunar. Ég veit að þeir könnuðu einnig alla þætti málsins og gerðu það mjög faglega og vandlega. Okkur barst nánast sameiginleg umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg. Ég verð að gera athugasemdir við það að sambandið virðist vera búið að taka afstöðu með einu sveitarfélagi umfram önnur, vegna þess að eins og gengur eru mismunandi skoðanir á þessu frumvarpi líkt og öðrum og ansi sérstakt að sjá nánast samhljóða álit frá þessum aðilum og ég verð að segja afar gagnrýnivert.

Það var fjallað hér um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir rakti það lauslega. Ég sé að minni hlutinn gagnrýnir að verið sé með almennum lögum í raun að takmarka sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga. Ég vil í því sambandi benda á 78. gr. stjórnarskrárinnar en þar kemur fram að sveitarfélög skuli sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða. Það eru því lög sem mæla fyrir um til hvaða þátta sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga nær.

Það er ágætt að halda því til haga í umræðunni vegna þess að þetta hefur skolast til hér og þar og því hefur jafnvel verið fleygt fram að sjálfsákvörðunarrétturinn sé heilagur og við honum megi ekki hrófla. Ég vil benda á að það eru ekki bara við sem erum að fjalla um það með einum eða öðrum hætti eða takmarka þennan sjálfsákvörðunarrétt, síðasta ríkisstjórn gerði það einnig. Mig langar að lesa upp úr lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun. Þar segir í 7. gr. að verndar- og orkunýtingaráætlun sé bindandi við gerð skipulagsáætlana. Sveitarstjórnir skuli samræma gildandi svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlanir verndar- og orkunýtingaráætluninni innan fjögurra ára frá samþykkt hennar, sbr. þó 2. mgr. þar sem veittur er viss frestur til að aðlaga skipulagið að ákvörðun stjórnvalda á hverjum tíma.

Í greinargerð eða athugasemdum kemur fram að gert sé ráð fyrir því að áætlunin sé bindandi við gerð skipulagsáætlana og sveitarstjórnir verði samkvæmt því að samræma svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlanir verndar- og nýtingaráætluninni. Þetta er meginregla í lögunum en það var gerð sú undantekning að sveitarstjórnum væri heimilt að fresta ákvörðun um landnotkun í tiltekinn árafjölda.

Ég kynnti mér aðeins aðdraganda og umræðu þegar þetta var gert í tíð síðustu ríkisstjórnar. Samband íslenskra sveitarfélaga, sem hefur bitið það í sig að það sé þeirra heilaga skylda að vernda sjálfsákvörðunarréttinn, gagnrýndi þetta mjög harðlega í áliti á sínum tíma. Það má því segja að þeir séu afar samkvæmir sjálfum sér þegar þeir gagnrýna þennan sjálfsákvörðunarrétt í hvert einasta skipti sem við breytum.

Ég vil líka nefna að í meðferð á landsskipulagi kom einmitt upp sú umræða hvort ekki væri með því til dæmis að vernda miðhálendi Íslands, sem ég veit að mjög margir vilja gera, verið að ganga á sjálfsákvörðunarrétt þeirra sveitarfélaga sem eiga land upp á miðhálendið, við fengum reyndar Reykjavíkurborg sem taldi eðlilegt að það væru allir landsmenn sem tækju ákvörðun um miðhálendið. Með þessu er ég aðeins að benda á að sitt sýnist hverjum. Þegar þetta snýr að sveitarfélögum í þeirra heimabyggð virðist eins og þau séu til í að gagnrýna, þegar þetta er fjarlægt finnst þeim þetta eðlilegur hlutur en ávallt er það þó þannig að Samband íslenskra sveitarfélaga gagnrýnir það að sjálfsákvörðunarrétturinn sé á einhvern hátt skertur. En eins og ég benti á þá höfum við hann til umfjöllunar, ekki einungis í þeim í lögum sem við munum samþykkja hér fljótlega heldur í mörgum öðrum lögum. Við samþykktum til að mynda samgönguáætlun út úr umhverfis- og samgöngunefnd um daginn en þar eru að sjálfsögðu lagðar línur fyrir samgöngukerfið í heild sinni og það er burt séð frá vilja einstakra sveitarfélaga, þótt þau hafi auðvitað aðkomu að öllum þessum málum.

Að öðru leyti vil ég ítreka að ég styð þetta frumvarp heils hugar. Tilgangurinn með lögunum er skýr. Þetta er hluti af stefnuyfirlýsingu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Það er verið að vinna í samræmi við hana. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt og brýnt að setja þessi lög. Við höfum því miður horft upp á það að húsaþyrpingar hafa ekki notið nægilegrar verndar og með þessum lögum verður væntanlega hægt að halda í fallegar húsaþyrpingar og heildir þannig að þær glatist ekki, það eru vissir þjóðarhagsmunir sem felast í því að það sé gert. Ég sé að hv. þm. Katrín Jakobsdóttir kinkar hér kolli. Það er gott.