verndarsvæði í byggð.
Virðulegi forseti. Í áliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar er ágætisumfjöllun og sérstakur kafli um efni og markmið frumvarpsins. Það er viðbót við það sem fram kemur í greinargerðinni með frumvarpinu sjálfu. Þetta er sambærileg spurning og hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir fékk hér áðan og svaraði og ég kom inn á það efni í ræðu minni. Ég tel mjög mikilvægt, og ég sá ekki betur en að menn væru sammála mér um það hér úti í sal rétt áðan, að setja þessa löggjöf. Hvort ég geti nefnt einhverjar húsaþyrpingar þá vildi ég að ég væri aðeins betur að mér varðandi til dæmis hverfismálin hér í Reykjavík, en ég gæti ímyndað mér að byggingar í Grjótaþorpinu hefðu litið öðruvísi út ef hægt hefði verið að vernda það svæði í heild sinni. Ég sé að hv. þm. Össur Skarphéðinsson kinkar hér kolli og segir já. Ef þessi lög hefðu verið þá til staðar hefði nú heldur betur verið hægt að varðveita þau glæsilegu hús sem þar eru. Ég gæti nefnt hverfi á Akureyri. Ég sé til dæmis Innbæinn fyrir mér, sem er líklega einn fegursti staður landsins að Brekkunni ótalinni, sem er þó falleg, en bæði þar og í miðbæ Akureyrar eru mjög mörg falleg gömul hús sem ég tel mjög mikilvægt að vernda. Ég skal reyna að svara betur öllum þeim spurningum sem til mér var beint í seinna andsvari.