144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[17:35]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin svo langt sem þau náðu, enda kom fram að hann hygðist bæta við þau í sínu síðara svari.

Ég hef sjálf verið þeirrar skoðunar að markmiðin með frumvarpinu séu mikilvæg og hef sjálf, bæði á vettvangi borgarstjórnar Reykjavíkur og hér á Alþingi, talað fyrir húsavernd og finnst þar byggðarheildir sérstaklega mikilvægar. En ég sé ekki að það sé rétta leiðin að fara þessa sérlagaleið og hefði haldið að hægt væri að styrkja framkvæmdina með því að kveða skýrar á um þessi mál bæði í skipulagslögum og í lögum um minjavernd. Ég tel að í ljósi þess sem fram kemur í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna, þar sem menn eru með fyrirheit um það almennt að einfalda stjórnsýslu og gera hana gagnsærri, hefði það verið í þeim anda að ná þessum markmiðum ríkisstjórnarinnar og fleiri, því að ég held að það deili mjög margir þessari sýn, með annarri leið en sérlagaleiðinni. Ég hef enn þá ekki séð nein rök sem mæla beinlínis með þeirri aðferðafræði. Ég heyri það á máli hv. þm. Líneikar Önnu Sævarsdóttur að hún reifaði það nokkuð að mismunandi leiðir væru fyrir hendi til þess að ná þessu markmiði.

Hv. þingmaður fór mikinn í gagnrýninni nálgun á Samband íslenskra sveitarfélaga og sagði að það væri sérkennilegt að sambandið stillti sér upp við hlið Reykjavíkurborgar í þessu máli og vék þar aðallega að sjálfsákvörðunarréttinum. Ég bið hv. þingmann um að rifja upp með mér sjónarmið sem sambandið lagði fram að því er varðaði hverfisskipulagið sem er jú sérstakt mál og varðar Reykjavíkurborg eina, að minnsta kosti hingað til.