144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:06]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er allt of margt að í þessari ríkisfjármálaáætlun. Það er mjög mikil lausung í henni vegna þess að forsendur hafa breyst, tækifæri eru ekki nýtt til að laga þær. Þegar ráðherra kemur á fund fjárlaganefndar telur hann ekki ástæðu til þess, þrátt fyrir að fyrirliggjandi sé að áætlunin haldi ekki. Hún heldur engu. Þetta er ekkert aðhaldsplagg, það er ekkert sem segir að hæstv. ráðherra þurfi að fara eftir einu eða neinu.

Þetta er gert til að uppfylla þingsköpin. Það lítur út fyrir það þegar hér er lögð fram áætlun sem liggur ljóst fyrir að stenst ekki. Að tala um lifandi plagg í því samhengi er fullgróft, virðulegi forseti, því að þótt áætlanir geti vissulega tekið breytingum, þar sem þær eru áætlanir, þá er hér í raun ekkert hald, það er bara þannig. Þess vegna getum við vinstri græn ekki greitt þessu plaggi atkvæði okkar.