144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:12]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég kannast ekki við annað en að hafa gert nákvæmlega það sem hæstv. fjármálaráðherra var að biðja um hér, a.m.k. við 1. umr. um þetta mál, að ræða nær eingöngu stóru myndina og framtíðina og einmitt lýsa vonbrigðum með þá staðreynd að þessi ríkisfjármálaáætlun teiknar upp þá framtíð að það verður enginn frekari bati á afkomu ríkisins næstu þrjú til fjögur árin, því miður, miðað við þessa áætlun.

Nú hafa auðvitað forsendur hennar breyst verulega, það er uppákoma sem alltaf má búast við, að áætlanir a.m.k. til skamms tíma raskist með einhverjum óvæntum atburðum. Ég veit ekki hvort þingið á þann kost, virðulegur forseti, að samþykkja þetta með einhvers konar skilyrðum. Það var einu sinni vandamál með námsmann í skóla norður í landi sem var búinn að berjast lengi við að ná stúdentsprófi og skólinn orðinn satt best að segja hálfleiður á honum, þannig að stúdentinn var útskrifaður með skilyrðum, þ.e. þeim skilyrðum að hann mundi aldrei láta reyna á stúdentspróf sitt og ekki reyna að fara í háskóla.

Kannski ættum við að afgreiða þessa ríkisfjármálaáætlun með þeim skilyrðum að fjármálaráðherra reyni ekki að fara eftir henni.