144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:13]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Umræðan um þessa ríkisfjármálaáætlun hefur verið stórundarleg af hálfu minni hlutans. Það hefur ekki verið farið efnislega í stóru myndina, eins og hæstv. fjármálaráðherra fór hér yfir. (Gripið fram í.) Aðalumræðan í dag snerist um formann fjárlaganefndar, sem hér stendur, þannig að þetta hefur farið út um víðan völl, (Gripið fram í.) þetta hefur farið út um víðan völl.

Ég vil minna þingmenn aftur á það, eins og ég fór yfir í dag, að fjárlagafrumvarpið verður birt þinginu eftir rúma tvo mánuði. Ég held því að þingmenn ættu að bíða rólegir. Málið er allt of seint á ferðinni vegna þess málæðis sem greip um sig hjá þingmönnum eftir áramót. Þetta er staðan sem þingið er í, virðulegi forseti, hér hafa ekki (Gripið fram í.) nein mál komist (Gripið fram í.)(Forseti hringir.) í gegnum þingið vegna þessa. Þetta er of seint samþykkt að mínu mati og ég minni þingmenn á að það eru einungis rúmir tveir mánuðir þar til frumvarpið kemur fram.