144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

alþjóðleg öryggismál o.fl.

628. mál
[18:20]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í þessari atkvæðagreiðslu liggja fyrir þrjár breytingartillögur sem miða í fyrsta lagi að því að auka gagnsæi í kringum þá ákvarðanatöku sem fer fram hjá hæstv. ráðherra þegar ákveðið er að heimila erlendum ríkisskipum að hafa viðkomu hjá sveitarfélögum. Það er sem sagt lagt til að samráðsskylda verði lögð á herðar ráðherra. Í öðru lagi er lagt til að ráðherra verði gert skylt að upplýsa hv. utanríkismálanefnd um það þegar erlend ríkisloftför hafa hér viðkomu. Í þriðja lagi er sú breyting lögð til, í ljósi þess að í þessu frumvarpi er verið að ræða um sérstaka ríkjahópa og samstarfsríki í þvingunaraðgerðum, ekki aðeins þær alþjóðastofnanir sem við Íslendingar erum aðilar að, að við orðið þvingunaraðgerðir bætist að þær geti ekki talist af hernaðarlegum toga svo að engin hætta sé á því að þessi lagaákvæði verði nýtt til þess að Íslendingar verði aðilar að aðgerðum sem geti kallast hernaðarlegar og hafi ekki verið samþykktar af alþjóðastofnunum.

Ég hvet hv. þingmenn til að samþykkja þær breytingartillögur sem eru lagðar fram af mér og hv. þm. Óttari Proppé, fulltrúum í utanríkismálanefnd.