144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

Menntamálastofnun.

456. mál
[18:25]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við í Bjartri framtíð styðjum þetta frumvarp til laga um Menntamálastofnun þrátt fyrir að ýmsir ágallar hafi verið í framkvæmd þess, sem lúta helst að því að ekki var nógu mikið samráð haft við hlutaðeigandi. Ég tel að í meðferð nefndarinnar hafi málið tekið miklum stakkaskiptum og hv. framsögumaður, hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir, hafi unnið mjög gott verk við að koma til móts við þær athugasemdir og ábendingar sem voru lagðar fram. Eins tel ég það mjög mikilvægt í ljósi þess mikilvæga hlutverks sem þessi stofnun á að gegna að hún fái góðan byr og stuðning í startið. Síðan þegar á reynir og við erum búin að sjá hvernig þetta þróast þá getum við komið fram með breytingartillögur til að styrkja hana enn frekar.

Við í Bjartri framtíð erum á grænu í þessu máli.