144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[18:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla skv. 5. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða.

Nefndin fékk á fund sinn fjölda aðila, þar á meðal frá sveitarfélögum, hagsmunaaðilum og Landssambandi smábátaeigenda og öðrum smábátafélögum auk Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Í tillögunni felast nokkrar breytingar frá þeirri ráðstöfun sem nú gildir. Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. laga, um stjórn fiskveiða, eru til ráðstöfunar 5,3% af úthlutun aflamagns kvótasettra tegunda til tiltekinna verkefna sem lögin kveða á um. Heildarmagn fyrir næsta fiskveiðiár er rúm 30 þús. tonn. Í tillögunni er lagt til að strandveiðiheimildir verði sambærilegar og á yfirstandandi fiskveiðiári, eða um 8.600 tonn, að skel- og rækjubætur verði minnkaðar um þriðjung og að byggðakvóti verði minnkaður en aukið við aflamark Byggðastofnunar. Lagt er til að aflaheimildir til línuívilnunar verði óbreyttar frá yfirstandandi fiskveiðiári, að 300 tonnum af þorski verði ráðstafað til frístundaveiða og að hætt verði að ráðstafa heimildum til áframeldis á þorski. Einnig er lagt til að þær makrílheimildir sem eru til ráðstöfunar verði seldar til veiða á grunnslóð og að 800 tonnum af síld verði ráðstafað til smábáta undir tiltekinni stærð en til þess þarf að gera breytingar á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.

Í lögunum er mælt fyrir um að ráðherra leggi fram tillögu til þingsályktunar til sex ára sem sæti endurskoðun á þriggja ára fresti. Þar sem unnið er að skýrslu um þær aðgerðir sem tillagan nær til og hagkvæmni þeirra leggur meiri hlutinn til að sú tillaga sem hér er til umfjöllunar sæti endurskoðun á 145. löggjafarþingi.

Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar á tillögunni. Lagt er til að 9 þús. tonn fari til strandveiða og verða þær heimildir því auknar um 400 tonn frá yfirstandandi fiskveiðiári. Nokkurt jafnvægi þykir vera komið á strandveiðar, fjöldi báta helst nokkuð stöðugur á milli ára og festa komin í útgerðarmunstrið. Afleidd áhrif strandveiða þykja nokkur á þær byggðir sem helst er gert út frá, einkum í höfnum og með þjónustu við strandveiðimenn. Arðsemi af veiðunum sjálfum er hins vegar neikvæð samkvæmt úttekt Hagstofunnar sem birt er í ritinu, „Hagur veiða og vinnslu“, og er því mikilvægt að horfa til niðurstöðu væntanlegrar úttektar á atvinnu- og byggðaáhrifum strandveiða í þeirri greiningu sem nú er unnið að og getið er um hér framar. Aflamagn til strandveiða síðustu þrjú fiskveiðiár er sem hér segir og áætlun fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 er eftirfarandi:

Lagt er til að allt að 2 þús. tonnum verði ráðstafað til rækju- og skelbóta og verði því óbreytt frá yfirstandandi fiskveiðiári. Aflamagn getur hins vegar aukist eða minnkað miðað við afla í innfjarðarrækju. Aflamagn til skel- og rækjubóta síðustu þrjú fiskveiðiár er sem hér segir og áætlun fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 er eins og kemur fram í þeim töflum sem fylgja nefndarálitinu.

Varðandi hinn almenna byggðakvóta er lagt til að allt að 7.353 tonnum verði ráðstafað til svokallaðs almenns byggðakvóta og verði því ámóta og á yfirstandandi fiskveiðiári. Magn er þó háð því hver endanleg ákvörðun ráðherra verður eftir mat á heildarmagni því sem til ráðstöfunar er til þessara aðgerða eftir skiptimarkað Fiskistofu. Í úttekt Vífils Karlssonar, „Mat á framkvæmd aflamarks Byggðastofnunar, janúar 2015“, í þeim sjávarþorpum sem eiga undir högg að sækja og eru jafnframt með samninga um sérstakan byggðakvóta Byggðastofnunar, er niðurstaðan sú að almennur byggðakvóti á þessum stöðum hafi ekki haft áhrif til aukinnar byggðafestu. Mikilvægt er að ljúka úttekt sem nær yfir alla notendur almenns byggðakvóta og meta áhrif á alla þá staði sem njóta þessa úrræðis. Aflamagn til byggðakvóta síðustu þrjú fiskveiðiár kemur fram í þeim töflum sem fylgja nefndarálitinu.

Lagt er til að allt að 5.400 tonn fari til aflamarks Byggðastofnunar og því verði aukið við þær aflaheimildir sem stofnunin hefur til ráðstöfunar til að styðja við sjávarþorp í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Magnið er þó háð óvissu um magn úr skiptimarkaði Fiskistofu. Fyrstu vísbendingar eru um að úrræðið, sem nú hefur verið við lýði í tvö ár, kunni að vera árangursríkara en mörg þeirra úrræða fiskveiðistjórnarkerfisins sem nú eru til staðar til atvinnu-, félags- og byggðastyrkingar. Það er ljóst að fleiri byggðir en Byggðastofnun hefur þegar gert samninga við falla undir skilgreiningar verkefnisins. Þýðingarmikið er að farið verði ítarlega yfir þau viðmið og skilgreiningar sem um verkefnið gilda, til dæmis fólksfjöldatakmarkanir, og skilgreiningu á sjávarþorpi í vanda. Skoða þarf ítarlega tillögur til úrbóta sem koma fram í áðurnefndri skýrslu Vífils Karlssonar, í því skyni að gera verkefnið árangursríkara og markvissara. Aflamagn til sérstaks byggðakvóta Byggðastofnunar hefur verið ákveðið síðustu tvö fiskveiðiár sem segir í þeim töflum sem ég vitna til og fylgja nefndarálitinu.

Lagt er til að 5.700 tonn fari til línuívilnunar og aukast þær aflaheimildir því lítillega frá yfirstandandi fiskveiðiári. Enn er lögð áhersla á að gerð verði úttekt eftir sjávarbyggðum á því hvar línuívilnun hefur afgerandi áhrif sem atvinnu-, félags- og byggðaaðgerð. Greindar verði leiðir til þess að línuívilnun færist í einhverjum mæli yfir á báta með beitningarvélar án þess að hafa verulega neikvæð áhrif á þær byggðir þar sem úrræðið skiptir hvað mestu máli, til dæmis með aukinni byggðatengingu ívilnunarinnar. Leitað verði leiða til að setja vinnsluskyldu á línuívilnunarafla. Þannig má nútímavæða veiðiskapinn án þess að veikja byggðaáhrif aðgerðarinnar. Aflamagn til línuívilnunar hefur verið eins og fram kemur í töflum og áætlun fyrir árið 2015/2016 eins og fram kemur í töflum sem fylgja nefndarálitinu.

Meiri hlutinn leggur til að magn til frístundaveiða verði aukið um 100 tonn frá yfirstandandi fiskveiðiári og fari í 300 tonn. Aflamagn til frístundaveiða hefur verið síðustu þrjú fiskveiðiár sem segir í þeim töflum sem fylgja nefndarálitinu og jafnframt áætlun fyrir næsta fiskveiðiár.

Lagt er til að heimildir til áframeldis á þorski verði minnkaðar um helming frá því sem nú er og gerir nefndin ráð fyrir því að þær falli í kjölfarið niður, þ.e. á þarnæsta fiskveiðiári. Að jafnaði hefur 500 tonnum af þorski verið ráðstafað til áframeldis þorsks í sjókvíum. Ákvæðið var sett inn til bráðabirgða í lögum nr. 85/2002 með það að markmiði að skapa tækifæri til aukinnar þekkingar á þorskeldi og fýsileika þess, á meðan kynbætur færu fram, þannig að aleldi gæti farið fram á þorski. Ákvæðið hefur verið framlengt nokkrum sinnum. Ljóst er að þróun í fiskeldi er ekki til áframeldis á þorski og kynbætur hafa ekki orðið að veruleika sem menn vonuðu. Aflamagn til áframeldis á þorski hefur verið síðustu þrjú fiskveiðiár sem hér segir og áætlun fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 er eftirfarandi ár og verður fyrir komandi fiskveiðiár eins og segir í töflum sem fylgja nefndarálitinu.

Meiri hlutinn leggur síðan til að tillagan verði samþykkt með þeim breytingartillögum sem koma fram í nefndaráliti.