144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[18:39]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla skv. 5. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, frá minni hluta atvinnuveganefndar sem eru sú sem hér stendur, Lilja Rafney Magnúsdóttir, og Kristján L. Möller sem er fjarverandi.

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða skal ráðherra ekki sjaldnar en á þriggja ára fresti leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns til næstu sex ára. Þar sem unnið er að úttekt á áhrifum þeirrar ráðstöfunar sem ákvæðið mælir fyrir um er gert ráð fyrir því að tillaga þessi gildi aðeins næsta fiskveiðiár, þ.e. 2015/2016, og hefur meiri hlutinn lagt til breytingu þess efnis. Leggur minni hlutinn til breytingartillögu í þá veru til að hnykkja á því.

Meiri hlutinn hefur lagt til nokkrar breytingar á tillögunni. Þær eru eftirfarandi: að aflamagn til strandveiða aukist um 400 tonn frá yfirstandandi fiskveiðiári, að 2 þús. tonnum verði ráðstafað til rækju- og skelbóta og verði því óbreytt frá yfirstandandi fiskveiðiári, að almennur byggðakvóti verði svipaður að magni og á yfirstandandi fiskveiðiári, að aflamark Byggðastofnunar verði aukið frá því sem nú er og sömuleiðis að línuívilnun aukist lítillega. Jafnframt leggur meiri hlutinn til að aflamagn til frístundaveiða verði aukið og að heimildir til áframeldis á þorski verði minnkaðar um helming í stað þess að þær falli brott líkt og mælt er fyrir um í tillögunni.

Fram hefur komið að unnið er að úttekt á ráðstöfun aflamagns sem er meðal annars nýtt í þeim tilgangi að styrkja byggðir landsins. Minni hlutinn telur rétt að horfa til þeirrar úttektar en auka samt sem áður það aflamagn sem gengur til strandveiða og aflamarks Byggðastofnunar á næsta fiskveiðiári. Slíka aukningu er unnt að leggja til með því að taka af heildaraflaaukningu fyrir næsta fiskveiðiár.

Nokkur sveitarfélög hafa ályktað í þá veru að taka undir sjónarmið Landssambands smábátaeigenda um að styrkja þurfi strandveiðarnar með auknum afla. Þau sveitarfélög eru Vesturbyggð, Ísafjarðarbær, Fjallabyggð og fleiri má nefna í því sambandi. Minni hlutinn telur strandveiðar afar mikilvægan þátt í fiskveiðistjórnarkerfinu og bendir á að skorað hefur verið á nefndina að auka heildarafla strandveiða. Bent var á fyrir nefndinni að auka þyrfti viðmiðunarafla til strandveiða svo ekki þyrfti að stöðva veiðar á svæði A í hverjum mánuði líkt og verið hefur undanfarin ár. Fram komu sjónarmið fyrir nefndinni um að umsvif og atvinna mundi aukast í sjávarbyggðum ef aukið yrði við strandveiðar. Einnig var bent á að arður af strandveiðum rynni að mestu til þeirra samfélaga sem ættu að njóta nálægðar sinnar við fiskimið, m.a. þar sem laun og kostnaður við slíka þjónustu skilaði sér til viðkomandi svæðis. Þá var bent á við umfjöllun nefndarinnar um málið að strandveiðar væru einföld og sanngjörn byggðaaðgerð þar sem smærri sjávarbyggðir nytu nálægðar við fiskimið.

Minni hlutinn telur brýnt að fram fari úttekt á byggða- og félagslegum áhrifum strandveiða á byggðir landsins. Minni hlutinn leggur til breytingu á tillögunni í þá veru að aflamagn til strandveiða verði aukið um 1 þús. tonn frá því sem meiri hlutinn leggur til, þ.e. að heildaraflaaukning fyrir næsta fiskveiðiár verði nýtt til strandveiða ásamt því að auka aflamark Byggðastofnunar.

Hvað varðar skel- og rækjubætur vill minni hlutinn undirstrika mikilvægi þess að sett verði sólarlagsákvæði á þær í þeirri vinnu sem fer fram í framhaldinu, þ.e. áður en ráðherra leggur næst fram tillögu á Alþingi á grundvelli 5. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða. Nokkur eðlismunur er á bótunum og telur minni hlutinn að taka verði tillit til þess hvernig hefur verið farið með bæturnar og hver tilgangur þeirra var upprunalega. Fram hefur komið að líkur hafi aukist á að skel muni veiðast að nýju í Breiðafirði og telur minni hlutinn að taka skuli tillit til þess.

Minni hlutinn telur brýnt að almennum byggðakvóta verði ráðstafað á þann veg að gagnist bæði veiðum og vinnslu í landi og gangi þangað sem þörfin er mest. Að mati minni hlutans mun þurfa að endurskoða byggðakvótann og líta meðal annars til þess hvort eingöngu dagróðrabátar eigi að nýta hann.

Við í minni hlutanum fögnum auknu aflamarki Byggðastofnunar og leggjum til að það verði aukið eins og kemur fram í breytingartillögum okkar. Tilgangurinn er að úthluta fiskveiðikvóta til útgerða í byggðarlögum sem hafa átt verulega undir högg að sækja, geta ekki með góðu móti sótt fram á öðrum sviðum og eru fjarri öflugum vinnumarkaðssvæðum. Fyrir liggur mat á framkvæmd aflamarks Byggðastofnunar frá Vífli Karlssyni frá janúar 2015 sem er að finna á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.

Minni hlutinn bendir á að línuívilnun skiptir fjölda byggðarlaga miklu máli og er oft hluti af þeim aðgerðum sem Byggðastofnun setur upp fyrir fyrirtæki sem gera samning um sérstakt aflamark hennar. Minni hlutinn telur rétt að horft verði til úttektarinnar á gagnsemi línuívilnunar fyrir veikari sjávarbyggðir og líka skuli litið til þess að um er að ræða umhverfisvænar og sjálfbærar veiðar. Minni hlutinn telur þó tilefni til endurskoðunar á línuívilnun í ljósi þess að beitningarvélar í báta af öllum stærðum hafa þróast mikið undanfarið.

Minni hlutinn undirstrikar mikilvægi þess að frístundaveiðar nýtist ferðaþjónustufyrirtækjum sem stunda sjóstangveiði. Ekki má koma til þess að almenni byggðakvótinn gangi inn í frístundaveiðipottinn. Tilvik hefur komið upp þar sem almennur byggðakvóti var nýttur í frístundaveiðar og tekur minni hlutinn undir óánægju þess efnis, sem kom fram hjá sjómönnum.

Hvað varðar áframeldi á þorski telur minni hlutinn brýnt að þau fyrirtæki sem það stunda fái svigrúm til að endurskipuleggja rekstur sinn og tækifæri til að sýna fram á að ekki sé útséð með að áframeldi á þorski borgi sig.

Minni hlutinn leggur áherslu á mikilvægi þess að ákveðnu aflamagni sé ráðstafað samkvæmt ákvæði 5. mgr. 8. gr. laganna til að styrkja byggðir landsins. Telur minni hlutinn þó að hlutfallið mætti vera mun hærra en 5,3% eins og það er í dag og leggur til að hugað verði að slíkri breytingu í þeirri vinnu sem fram undan er í ráðuneytinu.

Minni hlutinn telur að aðgerðir af þessu tagi skuli einkum nýtast minni og veikari sjávarbyggðum og telur brýnt að mörkuð verði stefna fyrir þær byggðir og reynt að auka byggðafestu veiðiheimilda verulega og meta hversu miklum heimildum nauðsynlegt er að ráðstafa, þá einkum aflamarki Byggðastofnunar. Minni hlutinn telur brýnt að til verði öflugur leigupottur ríkisins sem auki möguleika útgerða á að styrkja rekstrargrundvöll sinn.

Fram hefur komið að tillaga þessi muni einungis gilda fyrir næsta fiskveiðiár, þ.e. fiskveiðiárið 2015/2016. Minni hlutinn telur brýnt að í þeirri vinnu sem er fram undan og lýtur að því að undirbúa ályktun fyrir næstu sex fiskveiðiár þar á eftir verði aðkoma minni hluta þingmanna eða minni hluta stjórnarandstöðunnar tryggð. Slíkt samráð telur minni hlutinn afar mikilvægt, ekki aðeins til upplýsingar heldur einnig til að taka til greina tillögur sem koma frá minni hlutanum svo að unnt verði að ná sem víðtækastri sátt um ályktunina.

Minni hlutinn bendir á að við undirbúning þessarar tillögu áttu fulltrúar allra þingflokka kost á að sækja upplýsingafundi um málið og telur minni hlutinn það hafa verið jákvætt.

Jafnframt bendir minni hlutinn á að ráðherra getur ákveðið sjálfstætt að úthluta makríl án þess að stofninn verði hlutdeildarsettur en nú lítur út fyrir að frumvarp um stjórn veiða Norðaustur-Atlantshafsmakrílsins verði ekki að lögum.

Minni hlutinn leggur til breytingu á breytingartillögu meiri hlutans þess efnis að aukið verði við magnið til strandveiða um 1 þús. tonn og þá breytast jafnframt aðrir töluliðir smávægilega.

Jafnframt leggur minni hlutinn til breytingu til að hnykkja á því að tillagan gildi aðeins fyrir fiskveiðiárið 2015/2016. Minni hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

1. Í stað orðanna ,,fiskveiðiárunum 2015/2016–2020/2021“ í 1. málslið komi: fiskveiðiárinu 2015/2016.

2. Í stað 1.–11. töluliðar komi sjö nýir töluliðir, svohljóðandi:

1. 10 þús. tonnum til strandveiða.

2. Allt að 1.800 tonnum til rækju- og skelbóta.

3. Allt að 6.928 tonnum til byggðakvóta.

4. Allt að 5.400 tonnum til aflamarks Byggðastofnunar — sem er þó nokkuð mikil aukning, hátt í 2 þús. tonn.

5. 5.375 tonnum til línuívilnunar.

6. 300 tonnum til frístundaveiða.

7. 200 tonnum til áframeldis á þorski.

Undir þetta nefndarálit skrifa hv. þingmenn Lilja Rafney Magnúsdóttir og Kristján L. Möller.