144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

húsnæðisbætur.

788. mál
[22:03]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um húsnæðisbætur. Á undanförnum árum hefur farið fram mikil vinna á vegum velferðarráðuneytisins í samvinnu við mjög stóran hóp af fólki um húsnæðismál hér á landi og þar hefur sjónum meðal annars verið beint að því hvernig jafna megi húsnæðisstuðning hins opinbera við ólík búsetuform. Í dag er það þannig að húsnæðisstuðningur á Íslandi er veittur annars vegar í formi húsaleigubóta vegna leiguíbúða og hins vegar í formi vaxtabóta vegna eignaríbúða og búsetuíbúða.

Eins og þingmenn kannast ágætlega við, held ég, var skipuð verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála sem var falið að móta tillögur að framtíðarstefnu um húsnæðismál. Þar var líka samvinnuhópur sem starfaði með henni og skilað var tillögum að skýrslu í maí 2014. Meðal þess sem verkefnisstjórnin lagði til var að komið yrði á fót húsnæðisbótum með nýju húsnæðisstuðningskerfi hins opinbera þar sem stuðningur er miðaður við efnahag en ekki búsetuform. Þar var lagt til að byggt yrði á tillögum starfshóps um húsnæðisbætur frá 2012 og tillögum sérfræðingahóps á vegum verkefnisstjórnar frá 2014. Þessar hugmyndir voru síðan lagðar fram sem hluti af viðræðum sem áttu sér stað í tengslum við kjarasamninga þar sem meðal annars var farið yfir þetta frumvarp. Niðurstaðan var sú að lögð var fram yfirlýsing stjórnvalda um að þetta frumvarp hér yrði lagt fram sem hluti af framlagi okkar inn í kjarasamninga nú á vorþingi en yrði síðan afgreitt fyrir áramót.

Með þessu teljum við að við séum að mæta breyttum veruleika íslenskra heimila. Við erum að horfast í augu við að fjölskyldum á leigumarkaði hefur fjölgað verulega. Við erum að horfast í augu við að hlutfall húsnæðiskostnaðar af ráðstöfunartekjum þeirra sem eru á leigumarkaðnum hefur líka hækkað verulega síðustu ár á meðan hins vegar húsnæðiskostnaður þeirra sem búa í eigin húsnæði hefur lækkað.

Í dag er talað að það séu um 31.000 heimili á leigumarkaði. Árið 2007 bjuggu rúm 15% fjölskyldna í leiguhúsnæði en árið 2013 var það hlutfall orðið næstum því 25%. Það sem við sjáum líka í þeim könnunum sem við höfum gert er að fjölgun fólks á leigumarkaði hefur verið einna mest á meðal ungs fólks á aldrinum 25–34 ára, hjá einstæðum foreldrum og fólki í lægri tekjuhópum. Þá liggur fyrir að á almennum leigumarkaði hefur hlutfall heimila eftir tekjubilum hækkað eftir því sem farið er neðar í tekjustiganum. Mest hefur hækkunin orðið hjá þeim sem eru á lægsta tekjubilinu, þ.e. með 10% lægstu tekjurnar. Þannig voru 9,5% heimila á almennum leigumarkaði í lægsta tekjubilinu árið 2007 en árið 2013 hafði sú tala rúmlega þrefaldast, eða í 28,9%. Við sjáum að staða þeirra sem eru á leigumarkaðnum er erfið og hér erum við fyrst og fremst að horfa á fólk sem er á almennum leigumarkaði, en tökum ekki til dæmis leigjendur félagslegs húsnæðis. Til marks um erfiða stöðu leigjenda má einnig nefna að leigjendur eru í dag meiri hluti skjólstæðinga umboðsmanns skuldara.

Það kemur fram í könnunum að þessi hópur býr við verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað. Þetta er það sem stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins lögðu áherslu á að bæta úr, erfiðri stöðu leigjenda, í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Í yfirlýsingunni sem ég nefndi í upphafi, sem er sérstakt fylgiskjal við frumvarpið, kemur fram að það verður einmitt gert með því að auka stuðninginn. Við viljum bæta stöðu þeirra með því að auka stuðning við efnaminni fjölskyldur og einstaklinga og jafna húsnæðisstuðning ríkisins vegna eignaríbúða, leiguíbúða og búsetuíbúða þannig að fólk eigi raunverulegt val á milli ólíkra búsetuforma.

Ég tel að ég geti fullyrt að myndast hafi verulega breið samstaða um að jafna húsnæðisstuðning hins opinbera við ólík búsetuform og tryggja fólki þannig raunverulegt val á húsnæðismarkaðnum. Í ljósi mismunandi eðlis þess húsnæðiskostnaðar sem liggur til grundvallar húsnæðisstuðningi, eftir því hvaða búsetuform á í hlut hverju sinni, er hér lagt til að vaxta- og húsaleigubætur verði ekki sameinaðar í eitt kerfi húsnæðisbóta að svo stöddu, líkt og lagt var til í vinnu starfshópanna, heldur er í frumvarpinu gert ráð fyrir því að auka húsnæðisstuðninginn við leigjendur og það sem við töluðum um, að gera breytingar á báðum húsnæðisstuðningskerfunum til að jafna stuðning við ólík búsetuform. Því fjallar þetta frumvarp um nýtt kerfi húsnæðisbóta til leigjenda.

Gert er ráð fyrir að fjármögnun á framkvæmd húsnæðisbótanna samkvæmt frumvarpinu verði á ábyrgð ríkisins. Það er í samræmi við tillögu nefndanna. Sveitarfélögin hafa fram til þessa annast framkvæmd húsaleigubóta en ríkissjóður hefur fjármagnað rúmlega 60% af kostnaði vegna húsaleigubóta og sveitarfélög um 40%. Gert er ráð fyrir að tekjustofnar sveitarfélaga verði endurskoðaðir með tilliti til þessara breytinga þannig að sveitarfélögin verði jafnsett eftir breytinguna.

Í frumvarpinu er líka gert ráð fyrir að Tryggingastofnun ríkisins verði falið að annast framkvæmd húsnæðisbóta og að ákvarðanir hennar verði kæranlegar til úrskurðarnefndar velferðarmála, sem er verið að afgreiða nú á þessu þingi.

Ástæðan fyrir því að litið er sérstaklega til Tryggingastofnunar og lagt til að henni verði falið þetta er hin langa reynsla sem stofnunin hefur af framkvæmd ýmissa laga sem mæla fyrir um rétt einstaklinga til greiðslna frá hinu opinbera. Sú mikla þekking og reynsla mun að mínu mati nýtast vel við framkvæmd húsnæðisbótakerfisins og þá ekki síst sú reynsla sem stofnunin hefur af því að byggja samtímagreiðslur á tekjuáætlunum fram í tímann. Það er hins vegar gert ráð fyrir því að sveitarfélögin haldi áfram að annast sérstakan húsnæðisstuðning, líkt og nú er gert með sérstökum húsnæðisbótum, og er því lagt til að lögfest verði heimild þess efnis í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, en slíka heimild er nú að finna í lögum um húsaleigubætur. Þannig verður sérstakur húsnæðisstuðningur eða sérstöku húsnæðisbæturnar sem skýrastar sem hluti af þeirri félagslegu aðstoð sem sveitarfélögin veita.

Í frumvarpinu er lagt til að grunnfjárhæðir húsnæðisbóta taki mið af fjölda heimilismanna í stað fjölskyldugerðar eða fjölda barna að teknu tilliti til tekna og eigna heimilismanna 18 ára og eldri og húsnæðiskostnaðar. Gert er ráð fyrir að grunnfjárhæð húsnæðisbóta fyrir íbúðarhúsnæði þar sem heimilismaður býr einn verði 31.000 kr. á mánuði eða 372.000 kr. á ári fyrir skerðingu vegna tekna, eigna og húsnæðiskostnaðar. Þannig er um að ræða verulega aukinn húsnæðisstuðning við leigjendur, en grunnfjárhæð einstaklings eða barnlausra hjóna í gildandi húsaleigubótakerfi getur að hámarki verið 22.000 kr. á mánuði eða 264.000 kr. á ári. Gert er ráð fyrir að grunnfjárhæðirnar taki mið af fjölda heimilismanna, óháð aldri, eftir ákveðnum stuðlum og þannig lagt til að grunnfjárhæð húsnæðisbóta geti orðið allt að því 54.250 kr. þegar heimilismenn eru fimm eða fleiri.

Það er hins vegar, líkt og í gildandi húsnæðisstuðningskerfum, gert ráð fyrir að tekjur og eignir heimilisins hafi áhrif á rétt til húsnæðisbóta. Það er þó ekki gert ráð fyrir að tekjur og eignir barna hafi áhrif á fjárhag húsnæðisbóta. Ástæðan fyrir því er að litið er svo á að börn séu lögum samkvæmt á framfæri foreldra sinna til 18 ára aldurs og því þykir ekki eðlilegt að tekjur þeirra og eignir skerði húsnæðisbætur heimilisins.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að grunnfjárhæðir húsnæðisbóta skerðist mánaðarlega um fjárhæð sem nemur 0,67% af samanlögðum árstekjur heimilismanna 18 ára og eldri umfram tiltekin frítekjumörk og að frítekjumörkin taki mið af fjölda allra heimilismanna, óháð aldri, eftir sömu stuðlum og lagt er til að gildi um grunnfjárhæðir húsnæðisbótanna. Þar er um nýmæli að ræða því að í gildandi húsaleigubótakerfi eru frítekjumörkin ávallt þau sömu, óháð fjölda heimilismanna, sem leiðir til þess að afli fleiri en einn tekna á heimilinu skerðast húsaleigubætur til þess heimilis mjög hratt í kerfinu eða falla jafnvel niður að fullu. Þannig byrja húsaleigubætur í gildandi kerfi að skerðast fari tekjur heimilisins yfir 2.550.000 kr. á ári, sem jafngildir rúmum 212.000 kr. á mánuði.

Hér er leitast við að koma til móts við hlutfallslega hærri húsnæðiskostnað heimilis þegar fleiri búa saman með því að frítekjumörk fari eftir fjölda heimilismanna, enda held ég að öllum ætti að vera ljóst að hærri tekjur þarf til að standa straum af útgjöldum heimilis, þar á meðal húsnæðiskostnaði, eftir því sem heimilismenn eru fleiri. Ef þetta frumvarp verður að lögum er um verulega réttarbót að ræða fyrir fjölda heimila.

Það má líka geta þess að gert er ráð fyrir því að einhleypt foreldri með eitt barn geti haft hærri tekjur en í húsaleigubótakerfinu áður en til skerðinga kemur þar sem gert er ráð fyrir að frítekjumörk foreldris taki mið af fjölda heimilismanna og mundu því í þessu tilviki miðast við tvo heimilismenn. Samkvæmt frumvarpinu gæti foreldri haft 3.240.000 kr. í árstekjur áður en til skerðingar kæmi, samanborið við núverandi kerfi þar sem árstekjur sama foreldris umfram 2.550.000 kr., eins og ég nefndi áðan, skerða húsaleigubætur.

Frítekjumörk fimm manna fjölskyldu verða þá 4.725.000 kr. á ári í staðinn fyrir 2.550.000 kr. í gildandi húsaleigubótakerfi.

Það er hins vegar gert ráð fyrir því hér, og ég geri ráð fyrir að það verði eitt af því sem velferðarnefnd og umsagnaraðilar fara vel yfir, að frumvarpið verði innleitt í tveimur áföngum þannig að fyrsta árið eftir gildistöku laganna gildi sömu frítekjumörk fyrir alla þá sem sækja um húsnæðisbætur, eða 2,7 milljónir miðað við árstekjur allra heimilismanna 18 ára og eldri, en að lögin komi síðan með mismunandi frítekjumörkum til framkvæmda ári síðar.

Í frumvarpinu er síðan farið ítarlega í gegnum skilgreiningar á tekjum. Horft til sömu skilgreininga á tekjum og gert er í tengslum við vaxtabætur til að auka samræmi á milli þessara tveggja tekna. Þannig er gert ráð fyrir að greiðslur almannatrygginga muni teljast til tekna í skilningi frumvarpsins þótt þær hafi ekki talist til tekna í skilningi laga um húsaleigubætur, en þó hafa ýmsar aðrar greiðslur opinberra kerfa sem ætlaðar eru til framfærslu talist til tekna, svo sem atvinnuleysisbætur og fjárhagsaðstoð félagsþjónustu sveitarfélaganna.

Það eru líka ákveðin eignamörk, eins og ég nefndi, þannig að miðað er við að grunnfjárhæðir húsnæðisbóta skerðist hlutfallslega á ársgrundvelli séu eignir umfram 6,5 milljónir uns þær falla alveg niður við 60% hærri fjárhæð eða 10,4 millj. kr. Þar er verið að horfa á sama fyrirkomulag og eignamörk og gilda um skerðingu vaxtabóta vegna eigna hjóna og sambúðarfólks, en ákveðið var að miða við þau eignamörk frekar en eignamörk sem gilda um einhleypinga og einstæða foreldra í vaxtabótakerfinu. Vænti ég þess að það verði líka eitt af því sem velferðarnefnd fer yfir.

Til samanburðar má nefna að vaxtabætur til einhleypinga og einstæðra foreldra byrja að skerðast fari eignir þeirra umfram 4 milljónir og falla vaxtabætur niður að fullu við 6,4 millj. kr. Það er líka gert ráð fyrir sömu skilgreiningum á eignum og gert er ráð fyrir í vaxtabótakerfinu og síðan er hér þak á húsnæðisbæturnar þannig að þær geta aldrei numið hærri fjárhæð en sem jafngildir 75% af húsnæðiskostnaði vegna viðkomandi íbúðarhúsnæðis. Þar er um að ræða hækkun frá gildandi húsaleigubótakerfi þar sem húsaleigubætur geta aldrei numið hærri fjárhæð en sem nemur 50% af húsnæðiskostnaði.

Gert er ráð fyrir að einn einstaklingur sem býr á heimilinu sæki um húsnæðisbætur og eru ákveðin skilyrði varðandi það. Að sjálfsögðu þarf umsækjandi, og aðrir heimilismenn, að vera búsettur í viðkomandi íbúðarhúsnæði í skilningi frumvarpsins, hann þarf sannanlega að búa í hinu leigða íbúðarhúsnæði og eiga þar skráð lögheimili. Það er hins vegar undantekning frá því skilyrði, þ.e. hægt er að teljast heimilismaður en vera annars staðar. Ekki er gert ráð fyrir að börn geti átt sjálfstæðan rétt til húsnæðisbóta, eins og ég nefndi áðan, enda er barn á framfæri foreldra sinna eða forsjáraðila til 18 ára aldurs. Í ljósi framfærsluskyldu foreldra og forsjáraðila með börnum sínum til 18 ára aldurs þykir því eðlilegra að húsnæðisstuðningur vegna barna renni til þeirra sem hafa þau á framfæri. Það eru hér ákvæði sem snúa að börnum sem eiga tímabundið aðsetur á heimavist eða námsgörðum þannig að þótt meginregla frumvarpsins sé að til heimilismanna teljist eingöngu þeir sem búsettir eru í viðkomandi íbúðarhúsnæði þá getur barn yngra en 18 ára sem hefur tímabundið aðsetur á heimavist eða námsgörðum talist til heimilismanna á heimili foreldra eða forsjáraðila þess, enda eigi barnið þar skráð lögheimili.

Það eru ákvæði varðandi skilgreiningu á íbúðarhúsnæði; að liggja þurfi fyrir þinglýstur leigusamningur vegna íbúðarhúsnæðisins til a.m.k. þriggja mánaða og að liggja þurfi fyrir samþykki allra heimilismanna fyrir því að Tryggingastofnun ríkisins megi afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru til að unnt sé að afgreiða umsóknirnar. Réttur til húsnæðisbóta verður að sjálfsögðu ekki til staðar ef einhver heimilismanna nýtur réttar til vaxtabóta.

Það eru lagðar til nokkrar undanþágur frá þeim skilyrðum sem ég hef farið í gegnum hvað varðar búsetuíbúðarhúsnæði og þinglýsingu leigusamninga. Lagt er til að þrátt fyrir skilyrði frumvarpsins um búsetu geti einstaklingur talist til heimilismanna í hinu leigða íbúðarhúsnæði þótt hann eigi lögheimili annars staðar, hafi hann þar tímabundið aðsetur vegna náms, veikinda eða endurhæfingar á áfangaheimili. Sams konar undanþágu er að finna í lögum um húsaleigubætur en þó er verið að leggja til þá nýjung að undanþágan nái einnig til þeirra sem dveljast á áfangaheimilum, í ljósi þess að samkvæmt lögum um lögheimili er ekki mögulegt að eiga lögheimili á áfangaheimilum.

Ég er mjög ánægð að við höfum komið því fyrir í frumvarpinu að þegar foreldrar eða forsjáraðilar barna búa ekki saman geta börn þeirra talist til heimilismanna á báðum heimilum þeirra dvelji barnið að lágmarki 30 daga á ári á heimilinu. Þetta er veigamikil undanþága frá þeirri meginreglu frumvarpsins að einstaklingur geti aðeins talist til heimilismanna í einu íbúðarhúsnæði á hverjum tíma. Foreldrar og forsjáraðilar sem búa ekki saman eiga þannig að geta notið aukins húsnæðisstuðnings vegna barna sem eiga heimili hjá báðum foreldrum eða forsjáraðilum í senn. Þarna tel ég vera um mjög mikla réttarbót að ræða því að í gildandi húsaleigubótakerfi er einungis gert ráð fyrir að foreldri sem barnið á lögheimili hjá geti átt rétt til aukins húsnæðisstuðnings vegna barnsins.

Ástæðan fyrir því að ég, og þær nefndir sem unnu tillögurnar og að undirbúningi þessa frumvarps, taldi mjög mikilvægt að þetta væri hér inni er að það er algengara að fólk skilji, sameiginleg forsjá er að verða algengari og samskipti barna við báða foreldra er eitthvað sem við sjáum að menn leggja mun meiri áherslu á en kannski var áður fyrr. Þá þýðir það líka að báðir foreldrar eða forsjáraðilar verða og þeir vilja eiga kost á því að búa börnum sínum gott heimili, þótt þeir búi ekki saman, og það þýðir að þeir þurfa að vera með stærra húsnæði en ella.

Ég vil benda á, og það er náttúrlega eitt af því sem velferðarnefnd mun þurfa að taka afstöðu til og skoða vel, að vinnuhópur um húsnæðisbætur frá því 2012 og verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála lagði til að foreldrar þyrftu að hafa sameiginlega forsjá til þess að reglan ætti við. Hér er hins vegar verið að leggja til að eðlilegra sé að líta til umgengni foreldris og barnsins fremur en til þess hvort það fari með forsjá þess. Liggja þarf fyrir staðfesting á því að barn dvelji á heimili foreldris sem það hefur ekki lögheimili hjá og er gert ráð fyrir að til þess að staðfesta það þurfi að liggja fyrir samningur um umgengni sem sýslumaður hefur staðfest samkvæmt barnalögum eða úrskurður sýslumanns um umgengni samkvæmt sömu lögum. Þá getur barnið talist til heimilismanns á heimili beggja foreldra eða forsjáraðila. Þessi regla getur líka átt við um rétt foreldra eða forsjáraðila til húsnæðisstuðnings vegna barns sem á tímabundið aðsetur á heimavist eða í námsgörðum, þannig að barnið teljist til heimilismanna þeirra.

Síðan er líka gert ráð fyrir að réttur til húsnæðisbóta geti verið fyrir hendi þrátt fyrir skilyrði frumvarpsins um íbúðarhúsnæði þegar um er að ræða sambýli einstaklinga vegna félagslegra aðstæðna og er átt við sambýli fatlaðs fólks í húsnæðisúrræðum samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks, sambýli einstaklinga á áfangaheimilum eða sambýli námsmanna á heimavistum eða námsgörðum sem tengjast viðurkenndum menntastofnunum. Það verði þannig heimilt að greiða húsnæðisbætur vegna húsnæðiskostnaðar í þeim tilvikum þótt um sé að ræða leigu á einstökum herbergjum þar sem hluti rýmisins er sameiginlegur öðru íbúðarhúsnæði, t.d. þegar eldhúsi eða eldunaraðstöðu er deilt. Þetta er sams konar undanþága og hefur verið til staðar í húsaleigubótakerfinu allt frá árinu 2001 að því er varðar sambýli fatlaðs fólks í sérstökum húsnæðisúrræðum og sambýli námsmanna á heimavistum eða námsgörðum, en hér er gert ráð fyrir að undanþágan nái líka til sambýlis einstaklinga á áfangaheimilum, enda algengt að þar sé um að ræða leigu á einstökum herbergjum.

Einnig er gert ráð fyrir því að réttur til húsnæðisbóta geti verið fyrir hendi enda þótt ekki liggi fyrir þinglýstur leigusamningur þegar um er að ræða leigu á íbúðarhúsnæði í eigu ríkis, sveitarfélags eða félags sem er að öllu leyti í eigu ríkis eða sveitarfélags, en sambærileg undanþága hefur verið í húsaleigubótakerfi frá árinu 1997.

Lagt er til í frumvarpinu að sú undanþága verði einnig látin ná til leigu námsmanna á herbergi eða íbúð á heimavist eða námsgörðum, en með því er verið að horfa til þess að einfalda megi endurnýjun leigusamninga við námsmenn á heimavistum og námsgörðum. Sem dæmi þá eru endurnýjaðar, held ég, um 1.100 leigusamningar árlega hjá Félagsstofnun stúdenta sem hefur tekið upp nýtt og skilvirkara kerfi þar sem endurnýjun leigusamninga fer fram rafrænt.

Námsmenn sem búa á heimavist eða námsgarði munu því ekki þurfa að þinglýsa nýjum leigusamningi í hvert skipti sem samningurinn er endurnýjaður, eins og almennt er gert á hverju námsári til þess að eiga áframhaldandi rétt til húsnæðisbóta.

Það er annað atriði sem ég vil sérstaklega taka fram sem er að undanþágan varðandi þinglýsinguna verður samkvæmt frumvarpinu látin ná til þeirra sem njóta réttar til að halda afnotum af íbúðarhúsnæði sem þeir hafa misst á nauðungarsölu í allt að 12 mánuði samkvæmt ákvörðun sýslumanns á grundvelli sérstakrar heimildar í lögum um nauðungarsölu. Það hefur ekki tíðkast að gera húsaleigusamninga um slík afnot gerðarþola og hafa þeir því ekki átt rétt á húsaleigubótum þar sem eitt af skilyrðum laga um húsaleigubætur er að fyrir liggi þinglýstur leigusamningur. Með þessari undanþágu verður hægt að koma til móts við þá sem greiða fyrir afnot af húsnæði sem þeir hafa misst á nauðungarsölu, enda er í raun um að ræða ígildi leigugreiðslna. Síðan er það að umrædd undanþága nái til þeirra sem búa á áfangaheimilum.

Hér er verið að leggja til margvíslegar breytingar á húsnæðisstuðningi hins opinbera til leigjenda sem ég tel afar mikilvægt að gerðar verði til að auka stuðning við efnaminni leigjendur í ljósi erfiðrar stöðu þeirra á húsnæðismarkaði og til þess að tryggja að leigjendur eigi rétt á sambærilegum húsnæðisstuðningi frá hinu opinbera og þeir sem búa í eigin húsnæði eða búsetuíbúðum, þannig að landsmenn hafi raunverulegt val um búsetuform og búi við öryggi í húsnæðismálum í samræmi við þarfir hvers og eins. Ég tel þetta frumvarp sem liggur fyrir til laga um húsnæðisbætur mjög mikilvægan lið í því að svo verði.

Það er hins vegar eitt atriði sem er ekki í frumvarpinu sem ég mundi mjög gjarnan vilja, af því að hér situr alla vega einn fulltrúi í velferðarnefnd, að yrði skoðað sérstaklega. Það er hvort ekki sé eðlilegra að búseturéttarhafar í húsnæðissamvinnufélögum heyri undir húsnæðisbótakerfið í framtíðinni fremur en vaxtabótakerfið. Það er mikilvægt að húsnæðissamvinnufélög geti miðað búsetugjald við heildarfjármagnskostnað sinn vegna búsetuíbúða félagsins fremur en við fjármagnskostnað á hlutaðeigandi íbúð og er það lagt til í frumvarpi sem hefur verið í meðferð velferðarnefndar um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélag þar sem gert er ráð fyrir að félögin geti hagað rekstri sínum með þeim hætti.

Ef sú breyting yrði gerð á lögum um húsnæðissamvinnufélög, og ég geri ráð fyrir því að endurflytja það frumvarp aftur núna í haust, eins fljótt og ég mögulega get, þar sem það liggur fyrir að ekki næst að afgreiða það á þessu þingi, má ætla að búsetugjald og eftir atvikum vaxtagjöld búseturéttarhafa af láni sem hann hefur tekið til kaupa á búseturétti endurspegli betur húsnæðiskostnað viðkomandi en vaxtagjöld húsnæðissamvinnufélagsins sjálfs vegna skuldbindinga félagsins. Þetta er eitt af því sem ég vil gjarnan beina til velferðarnefndar að skoða sérstaklega og taka jafnvel upp við búseturéttarhafa hvar þeir telja að stuðningi við þá væri best fyrir komið.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar til umsagnar og áframhaldandi vinnu.