144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi fundargerðir hv. atvinnuveganefndar þá hafa þær verið samþykktar og yfirfarnar og ég geri engar athugasemdir við þær og veit ekki til þess að neinar athugasemdir hafi komið fram um að þær séu rangt skráðar. Það má vel vera að mér hafi yfirsést og ég biðst þá forláts á því að þingmenn eða þingmaður Pírata, áheyrnarfulltrúi, hafi mætt á einhvern fund í atvinnuveganefnd út af þessu máli, en þeir voru fjölmargir. Það er auðvitað mjög villandi þegar farið er yfir það hér að 37,5% sé einhver tala til að miða við þegar kemur að því að þrír þingmenn geti sinnt nefndarstörfum. Það er alþekkt regla í þinginu að þingmenn sitja í tveimur nefndum og sinna því með sóma. Þá er hin sama tala orðin 75% fyrir hvern þingmann Pírata. Þegar menn raða sér í nefndir sem funda sama daginn, annars vegar í fastanefnd og hins vegar sem áheyrnarfulltrúi, þá geta menn náttúrlega ekki mætt á báða fundina. Þannig raða þingmenn sér almennt ekki niður í nefndir. Þegar þeir velja sér nefnd sem fundar á mánudögum og miðvikudögum þá velja þeir sér nefnd sem vinnur á þriðjudögum og fimmtudögum á móti. Þannig fara þingmenn almennt til starfa í tveimur nefndum og skila því. Það hefur verið venjan á Alþingi. Undantekningin er ef menn sinna einhverjum ábyrgðarmeiri hlutverkum sem taka mikinn tíma, þá sitja þeir bara í einni nefnd eða jafnvel í engri nefnd ef svo ber undir.