144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:02]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, nr. 13/141, frá 2. minni hluta atvinnuveganefndar.

Annar minni hluti telur að það hafi verið mistök af hálfu ráðherra að fela verkefnisstjórn að fjalla um svo fáa virkjunarkosti sem raun ber vitni. Slíkt fyrirkomulag samræmist ekki aðferðafræði rammaáætlunar, eins og formaður verkefnisstjórnar hefur vakið athygli á. Þessi ráðstöfun ráðherra leiddi til þess að verkefnisstjórn í þriðja áfanga rammaáætlunar treysti sér eingöngu til að leggja til að einn virkjunarkostur yrði færður úr biðflokki, þ.e. Hvammsvirkjun. 2. minni hluti telur að það hefði þurft að vinna með mun fleiri kosti til þess að aðferðafræði við röðun kosta yrði marktæk og samanburðarhæf.

Í bókun eins fulltrúa verkefnisstjórnar, Þóru Ellenar Þórhallsdóttur, kemur fram að hún geti ekki fallist á þau drög að tillögu að flokkun virkjunarkosta sem afgreidd voru frá verkefnisstjórn. Fram kom að hún vísaði til upptalningar á atriðum sem þyrftu að liggja fyrir til að unnt yrði að taka afstöðu til Holtavirkjunar þar sem skilgreint hefði verið hvaða viðbótarrannsóknir þyrfti að gera á búsvæðum laxfiska í Þjórsá.

Benti hún á að miðað við tillögu verkefnisstjórnar þyrfti aðeins að skilgreina þörfina á viðbótarrannsóknum en niðurstöður þeirra þyrftu ekki að liggja fyrir. Taldi hún því áhrif framkvæmda ekki liggja til grundvallar í röðun og væri það að hennar mati grundvallarfrávik frá vinnubrögðum í fyrri tveimur áföngum rammaáætlunar. Þá benti hún á að með þessu væri skapað fordæmi fyrir frekari málsmeðferð og líkti hún fyrirkomulaginu við óútfylltan en undirritaðan tékka þar sem verkefnisstjórn hefði skrifað undir að afleiðingar væru þess eðlis að ráðast mætti í framkvæmdir en mikilvægustu áhrif þeirra á lífríki væru samt sem áður óþekkt.

Annar minni hluti bendir á að í umsögnum sem bárust nefndinni er tilfærsla Hvammsvirkjunar í virkjunarflokk harðlega gagnrýnd enda í raun um að ræða tilraunaverkefni fyrir mótvægisaðgerðir vegna laxastofnsins í Þjórsá.

Annar minni hluti fagnar því að meiri hlutinn dragi breytingartillögu um að fjölga kostum í virkjunarflokki til baka enda var ljóst að hún samræmist ekki faglegum verkferlum rammaáætlunar og lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011.

Annar minni hluti ítrekar það sem fram kom í nefndaráliti hans á þingskjali 1248 þar sem lagt var til að málinu yrði vísað til umhverfis- og auðlindaráðherra sem fæli verkefnisstjórn að fjalla um þann kost sem tillagan felur í sér, þ.e. Hvammsvirkjun.

Undir þetta ritar sú sem hér stendur, Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Við höfum rætt mikið um þetta mál hér í þinginu og ekki að ósekju að það varð auðvitað uppnám í þessu öllu þegar meiri hluti atvinnuveganefndar tók þá ákvörðun að leggja til breytingartillögu á þeirri tillögu sem kom hér fyrir þingið frá ráðherra, og hleypa hér öllu upp í loft og ganga algjörlega fram hjá faglegu ferli verkefnisstjórnar rammaáætlunar. Ég ætla ekki að fara að flytja efnislega langa ræðu í þessu efni. Mér þótti svona frekar mikill snúður á formanni atvinnuveganefndar þegar hann flutti ræðu sína áðan, hann lagði sig mikið fram við það að réttlæta þá ákvörðun sem meiri hlutinn tók á sínum tíma og mér fannst hann tala þannig eins og að valdið ætti að liggja hjá atvinnuveganefnd í þessum efnum, en svo er ekki. Við ætlum að fara eftir því faglega ferli sem er í þessu máli, þ.e. að það sé verkefnisstjórn 3. áfanga sem fari í gegnum þessa flokkun á virkjunarkostum í bið, nýtingu eða vernd, og við verðum að virða það ferli. Allt annað er á skjön við þau lög sem við höfum öll samþykkt hér. Ég ætla rétt að vona að við höldum áfram því faglega ferli sem var hér í upphafi.