144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:23]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Við erum komin hér að leiðarlokum í afar langri umræðu sem staðið hefur yfir í mjög langan tíma. Mér telst til að hér sé í raun og veru um að ræða mál sem rætt var á tíu eða ellefu þingdögum í síðari umr. þingsályktunartillögunnar. Þeir dagar fóru að mestu leyti í umræður um tillöguna og þess á milli í umræður um fundarstjórn forseta. Af hverju var það, virðulegi forseti? Það var vegna þess að stjórnarandstaðan sameinuð vildi benda forseta á að málið ætti ekkert erindi á Alþingi, þ.e. að málið með breytingartillögum meiri hluta atvinnuveganefndar ætti ekki erindi í umræðuna. Það varð enda niðurstaðan. Það er sú niðurstaða sem liggur fyrir núna þegar hv. þm. Jón Gunnarsson hefur úr ræðustól Alþingis dregið breytingartillögu meiri hluta atvinnuveganefndar til baka eins og hún leggur sig. Það eru viðbrögð Alþingis, það eru viðbrögð stjórnarmeirihlutans við ítrekuðum sameinuðum athugasemdum minni hluta þingsins um fundarstjórn forseta, með málefnalegum rökum sem vísuðu bæði til þess hversu mikilvægt mál væri hér á ferð, en ekki síður til efasemda um lagaumhverfi og réttarstöðu þeirrar tillögu.

Það liggur við að í þessari umræðu sé rétt að færa fram þakkir til hv. þm. Jóns Gunnarssonar og meiri hluta atvinnuveganefndar vegna þess að í umræðunni í vetur urðu tímamót í því að hér á Alþingi varð til skýr, samhent og óbugandi stjórnarandstaða. Það varð til sú stjórnarandstaða sem kláraði samninga um lok þingsins, sameinuð. Vinstri hreyfingin – grænt framboð, Samfylkingin, Björt framtíð og Píratar voru nefnilega nákvæmlega sammála upp á dag í þeirri umræðu sem fjallaði um fundarstjórn forseta og valdníðslu þá sem birtist í meirihlutatillögu atvinnuveganefndar við tillögu ráðherra um rammaáætlun. Þarna var það nefnilega svo skýrt vegna þess að það andóf snerist ekki bara um tillöguna, það snerist líka um þær áhyggjur sem við öll í minni hlutanum höfðum og höfum um þau dýpkandi átök sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir varðandi virkjunarmál og náttúruvernd og rammaáætlunarlögunum var ætlað að stilla af.

Þarna hefur stjórnarmeirihlutinn farið mikinn í því að viðhalda átökunum í íslensku samfélagi um þessi mál og þarna og nákvæmlega í þessu máli kristallaðist það að átakasækni meiri hlutans snýst ekki bara um náttúruvernd. Hún snýst ekki bara um umhverfismál. Hún snýst ekki bara um rammaáætlun. Hún snýst um hvert málið á fætur öðru sem ríkisstjórnarmeirihlutinn hefur tekið hér inn í þingið, farið fram með ófriði, dólgshætti og yfirgangi í nafni meirihlutaræðis, en í hverju málinu á fætur öðru hefur það verið brotið á bak aftur með þessari samstöðu stjórnarandstöðunnar sem varð til við breytingartillögu meiri hluta atvinnuveganefndar um rammaáætlun.

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna segir m.a., og ég þreytist seint á því að lesa það upp, virðulegi forseti:

„Ríkisstjórnin mun leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslensk stjórnmál og umræðu í samfélaginu um nokkurt skeið.“

Virðulegi forseti. Þessi markmið eru í ljósi þessarar tveggja ára sögu fullkomlega hlægileg. Hvar hefur ríkisstjórninni tekist að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn sundurlyndi og tortryggni? Í hverju málinu á fætur öðru hefur ríkisstjórnin valdið ófriði hér innan húss og úti í samfélaginu í hverju málinu á fætur öðru, á vinnumarkaði, gagnvart þjóðinni og gagnvart hverjum hagsmunaaðilanum á fætur öðrum. Og einmitt (Forseti hringir.) þess vegna er fagnaðarefni að við erum nú komin á síðari hluta kjörtímabilsins. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)