144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:28]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við erum að nálgast lokametrana í umræðu um þetta mál sem hefur verið með afar sérkennilegum hætti. Það hófst með því að þáverandi hæstv. umhverfisráðherra mælti fyrir tillögu um einn virkjunarkost, Hvammsvirkjun, sem við ræðum hér. Hann rökstuddi það með ítarlegri greinargerð af hverju eingöngu einn kostur væri lagður til þó að hæstv. ráðherra hefði beðið verkefnisstjórn um að skoða fleiri kosti. Eftir þá einkennilegu ráðstöfun meiri hluta Alþingis að ákveðið var að vísa málinu til hv. atvinnuveganefndar þó að áður hefði málið verið til umfjöllunar hjá hv. umhverfis- og samgöngunefnd og málaflokkurinn væri á forræði hæstv. umhverfisráðherra, tók við sérkennilegt ferli þar sem meiri hluti nefndarinnar skilaði að lokum breytingartillögu sem með sanni má kalla glænýtt mál sem gekk þvert á rökstuðning hæstv. ráðherra fyrir því af hverju eingöngu einn virkjunarkostur var lagður til í upphafi. Sú aðferðafræði varð auðvitað uppspretta allra þeirra fjöldamörgu ræðna sem hér voru haldnar og snerust fyrst og fremst um vinnubrögð, snerust um það að ferlinu hefði ekki verið fylgt með þeim hætti sem ætlunin var samkvæmt nýsamþykktum lögum um rammaáætlun frá árinu 2011.

Ég fagna því eins og aðrir þeir hv. þingmenn sem hér hafa talað að hv. þm. Jón Gunnarsson kom hér upp og dró breytingartillöguna til baka. Hefði það betur verið gert fyrr. En þá liggur fyrir að við ræðum hér einn virkjunarkost. Ég finn mig knúna til að nefna þrennt í umræðu um hann. Það er í fyrsta lagi að hugmyndafræðinni sem beita átti við þá flokkun sem rammaáætlun byggir á var ætlað að komast út úr því að hér væri verið að taka ákvarðanir um virkjanir vegna eftirspurnar einstakra fyrirtækja. Því miður kom það í ljós í máli hv. þingmanns, formanns atvinnuveganefndar, hér áðan þar sem hann grét það mjög að orkufyrirtækin gætu ekki gefið þeim fyrirtækjum jákvæð svör sem óskuðu eftir því að fara hér í framkvæmdir, að þessi hugmyndafræði virðist enn ekki hafa skilað sér til einhverra hv. þingmanna, að hugsunin er einmitt að vega og meta ólíka kosti alveg án þess að setja þá í samhengi við eftirspurn einstakra fyrirtækja. Við ætluðum að fara út úr því ferli, virðulegi forseti.

Þó að það hafi nú verið viðurkennt með því að draga tillöguna til baka að þessi tillaga hafi verið frumhlaup get ég ekki lagt nægjanlega áherslu á að við verðum að reyna að halda okkur við hana. Hins vegar hefði ég talið æskilegra að við værum hér að fjalla um fleiri kosti í einu, þ.e. að við hefðum beðið eftir umfjöllun verkefnisstjórnar um fleiri verkefni þannig að unnt væri að setja þessa kosti hvern í samhengi við annan, því að aðferðafræðin byggist auðvitað ekki á því að meta staka virkjunarkosti. En það var eigi að síður niðurstaða verkefnisstjórnar. Ég dreg það hins vegar mjög í efa að hér sé endilega besta leiðin farin, þ.e. að meta bara einn stakan virkjunarkost.

Fremur hefði ég kosið að horfa á málið í heild sinni eftir þann tíma sem það mun taka verkefnisstjórn að ljúka umfjöllun sinni og líka í samhengi við verndarflokkinn. Það er líka það sem mér finnst ógna þessu ferli öllu saman, þ.e. sú hugmyndafræði að rífa í sundur vernd og nýtingu, að það sé hv. umhverfisnefndar að fjalla um verndarflokk en hv. atvinnuveganefndar að fjalla um nýtingarflokk. Og um leið hafa menn hér í meiri hlutanum lagt ofurkapp á nýtingarflokkinn þegar það hefur verið staðfest í ítrekuðum fyrirspurnum mínum til hæstv. umhverfisráðherra og svörum sem sýna að ekkert er að gerast í verndarflokki rammaáætlunar, ekki neitt. Á þeim tveimur árum sem liðin eru af þessu kjörtímabili hefur bókstaflega ekkert gerst í verndarflokki rammaáætlunar. Jafnvel þótt það hafi verið samþykkt hér á vormánuðum 2013 að ákveðnum kostum yrði skipað í verndarflokk og það sé lagaleg skylda hæstv. ráðherra að sinna því þá hefur ekkert gerst. Við erum með þingskjöl því til sönnunar.

Frú forseti. Um leið og ég fagna því að breytingartillagan hafi verið dregin til baka finnst mér enn margt benda til þess að við þyrftum að ræða betur grundvöllinn sem þessi tillaga byggir á. Ég hef áður kynnt þau sjónarmið sem ég og (Forseti hringir.) mín hreyfing stöndum fyrir í atvinnuuppbyggingu og umhverfisvernd. Þau þurfa ekki að koma neinum á óvart. Það eru spurningar (Forseti hringir.) sem við þurfum að svara síðar þó að það verði ekki gert hér í kvöld á þessu þingi.