144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

störf þingsins.

[10:27]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Rögnunefndin skilaði af sér um daginn og útilokaði marga valkosti sem hefur verið haldið á lofti í umræðunni og gætu leyst Reykjavíkurflugvöll af hólmi. Mér hefur sýnst af umræðunni að ekki sé meiri hluti og það verði ekki meiri hluti fyrir því að færa flugvöllinn í Hvassahraun. Vil ég benda þeim sem telja að hægt sé að færa hann til Keflavíkur á að þá mun innanlandsflugið að öllum líkindum leggjast af að stórum hluta, einfaldlega vegna þess að það verður allt of lítill munur á milli þess að aka frá til að mynda Ísafirði og Akureyri og að taka flug og bíl eða nota annan samgöngumáta.

Það sem mér fannst koma út úr þessu var að Reykjavíkurflugvöllur þar sem hann er í dag sé í rauninni besta lausnin. Það var ekki kannað sérstaklega en mér finnst það einhvern veginn liggja milli línanna í skýrslunni og í raun vera mjög augljóst.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri lýsti því yfir að hann vildi að aðrir kæmu upp úr skotgröfunum og ræddu þetta mál. Ég vil þá beina því til hans sömuleiðis, hvort hann sé ekki reiðubúinn að gera slíkt hið sama. Hann hefur til dæmis ekki verið reiðubúinn að ræða hvort það sé ekki einfaldlega best fyrir land og þjóð að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni. Ég hvet hann til þeirrar umræðu. Ég vil líka hvetja hann til að stöðva framkvæmdir á Hlíðarendasvæðinu sem miða allar að því að neyðarbrautin hverfi, hann las það reyndar út úr skýrslunni á óskiljanlegan hátt að hún bæri það með sér að halda ætti áfram með þær framkvæmdir.

Einnig vil ég beina því til hans að þangað til að (Forseti hringir.) vilji Alþingis til þess að (Forseti hringir.) byggja upp annan flugvöll eða færa hann frá Vatnsmýrinni liggur fyrir taki hann (Forseti hringir.) brottflutning Reykjavíkurflugvallar úr aðalskipulagi, en norður/suður brautin á að hverfa árið 2022 og farga á flugvellinum endanlega árið 2024. Ég vona að þessi skilaboð berist til borgarstjóra.