144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

störf þingsins.

[10:35]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Mig langar í fyrsta lagi að taka undir með hv. þm. Eldari Ástþórssyni um að fólk stilli frammíköllum í hóf hér. Auðvitað verða frammíköll aldrei afnumin og stundum geta þau verið skemmtileg, en oftast, því miður, eru þau leiðinleg og trufla ræðumann. Ég vil því taka undir með hv. þm. Eldari Ástþórssyni um að við skulum reyna að venja okkur sem mest af þeim sið eða ósið, eða hvað sem það er nú kallað.

Mig langar einnig að nefna það sem tveir framsóknarþingmenn hafa nefnt hér og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom líka inn á það, þ.e. þær hækkanir sem blasa við í verslunum og að lækkun á sykurskattinum hefur ekki skilað sér. En eins og hér hefur komið fram er það ekkert nýtt. Það hefur bara því miður alltaf verið svona. Það hefur alltaf verið þannig að verslunin er fljót að hækka þegar gengi breytist eða þegar verð kemur inn, en dregur því miður alltaf lappirnar við það að lækka og lækkanirnar skila sér — ég ætla bara að segja aldrei eins og hækkanirnar skila sér.

Ég vil á sama tíma lýsa mig algjörlega andsnúna því að þingið fari að ákveða hvort búðir hafi opið á næturnar eða ekki. Það er neytenda að velja þá með fótunum og versla (Forseti hringir.) ekki í þeim verslunum sem eru svo dýrar vegna langs opnunartíma.