144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

plastpokanotkun.

166. mál
[10:45]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni góð tillaga og ég er ánægð með að hún skuli vera komin í þingið og til samþykktar. Ég vildi bara segja að þetta er mjög í þeim anda sem verið er að vinna í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu núna. Við viljum reyna að draga sem mest úr plastnotkun og ýmiss konar sóun. Við vitum sjálf að við notum umbúðir allt of mikið, eins og ofgnóttin af plasti sannar.

Ég hef stundum sagt frá því að fyrir allmörgum árum var ég á ferðalagi um Dalina í Svíþjóð og það sem vakti hvað mest athygli mína þar var að þar voru plastpokar til þerris á snúrunum. Þar voru húsmæðurnar það nýtnar að þær endurnotuðu plastpokana, þvoðu þá og hengdu þá út til þerris. Ég held að við getum margt lært af fólki í kringum okkur og hvet til þess að við tökum á þessu, vegna þess að eins og hér hefur komið fram í umræðunni er það er ekki síst varðandi mikilvægustu auðlind okkar, hafið, að sífellt fleiri rannsóknir leiða í ljós að plastið hefur slæm áhrif á allt lífríki þar. Svo taldi maður að maíspokar yrðu kannski lausnin fyrir okkur íslenskar húsmæður, en síðan las ég ágæta skýrslu um maíspokana þannig að þeir eru kannski ekkert betri hvað varðar ýmsa þætti í umhverfinu en plastið. Það eru aðrir þættir sem vega þar þungt þannig að það er stundum erfitt að eiga við þessi mál. Notum taupoka sem mest eða það sem við getum endurunnið.