144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

101. mál
[10:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um athugun á hagkvæmni lestarsamgangna. Tillagan er flutt af þingmönnum fjögurra flokka, Katrínu Jakobsdóttur, Svandísi Svavarsdóttur, Silju Dögg Gunnarsdóttur, Óttari Proppé, Karli Garðarssyni og Oddnýju G. Harðardóttur, og endurspeglar það hversu þverpólitískt þetta mál er að flutningsmennirnir eru bæði úr stjórn og stjórnarandstöðu.

Nefndarálitið með breytingartillögu segir:

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólaf Bjarnason frá Reykjavíkurborg, Jónas Snæbjörnsson frá Vegagerðinni og Hrafnkel Proppé frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Nefndinni bárust umsagnir frá ýmsum aðilum.

Þingsályktunartillagan er í raun tvíþætt. Annars vegar er lagt til að innanríkisráðherra láti kanna í samstarfi við hlutaðeigandi sveitarfélög hagkvæmni lestarsamgangna milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur, og hins vegar hagkvæmni léttlestakerfis innan höfuðborgarsvæðisins. Þá verði kannaðir kostir og gallar þessa samgöngumáta og hugsanlegar leiðir til að koma honum á. Sjónum verði einkum beint að kostnaði og ávinningi samfélagsins og efnahagslegum, umhverfislegum og skipulagslegum áhrifum. Niðurstöður athugunarinnar liggi fyrir um mitt ár 2015, segir í tillögunni, en í breytingartillögunni er gert ráð fyrir að í stað ártalsins „2015“ komi: 2016, eðli málsins samkvæmt.

Á fundi nefndarinnar kom fram að á síðustu missirum hafi staðið yfir vinna við gerð nýs svæðisskipulags fyrir höfuðborgarsvæðið, en að þeirri vinnu koma öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Samstarf milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hefur verið mikið og vaxandi eftir ný skipulagslög sem samþykkt voru árið 2010 þar sem svæðisskipulaginu er gert enn þá hærra undir höfði. Má halda því fram með réttu að samstarf sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu hafi verið afar farsælt og hafi ekki bara snúist um hefðbundna skipulagsvinnu heldur ekki síður um samstarf að því er varðar sorphirðu, almenningssamgöngur og fleiri þætti. Í því svæðisskipulagi sem núna er unnið að er sjónum sérstaklega beint að uppbyggingu svæðisins í heild og samgöngukerfis sem tengir sveitarfélögin og tengir síðan höfuðborgarsvæðið við landsbyggðina.

Borgarlína er nýtt afkastamikið almenningssamgöngukerfi sem ætlað er að verða hryggjarstykkið í þróun samgangna og uppbyggingu byggðar á höfuðborgarsvæðinu. En ljóst er að á næstu áratugum mun þurfa að taka mið af því að íbúum borgarinnar og höfuðborgarsvæðisins í heild mun fjölga mjög mikið samkvæmt mannfjöldaspá. Ég hef stundum sagt að við þurfum að gæta að þeirri hlið byggðastefnu Íslands að ræða ekki bara þann enda sem lýtur að landsbyggðinni heldur ekki síður þá staðreynd að sífellt fleiri flytja hér á þéttbýlissvæðin. Við þurfum að gæta að því hvernig þéttbýlissvæðin taka við þeirri breytingu. Við gerum ráð fyrir því samkvæmt mannfjöldaspám, samkvæmt því sem fram kemur hjá Hagstofunni, að þetta verði um 300 þúsund manns eftir 25 ár. Höfuðborgarsvæðið ber ekki þennan aukna fjölda ef ekki verða breytingar á ferðavenjum höfuðborgarbúa, það er að tryggt verði meira jafnræði milli ferðamáta, ekki þannig að horfið verði frá möguleikum þeirra sem vilja nýta einkabíl heldur að möguleikum þeirra sem vilja nýta aðra kosti verði lyft, bæði þeirra sem vilja vera gangandi og hjólandi og ekki síður þeirra sem vilja nýta almenningssamgöngur. Þar þarf samfélagið að koma á móti, enda er það svo að okkar stærstu sóknarfæri að því er varðar samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda varða beinlínis samgöngumál og losun gróðurhúsalofttegunda í samgöngum.

Þarna er því í raun og veru ákveðin keðjuverkun sem leiðir til stærstu möguleika okkar að því er varðar það að draga úr losun og leggja okkar af mörkum á alþjóðavísu varðandi loftslagsmarkmið. Það er nauðsynlegt að auka þar með hlutdeild almenningssamgangna í ferðavenjum á höfuðborgarsvæðinu í heild, en það gagnast auðvitað líka þeim sem vilja áfram nota einkabíl þar sem það verði greiðara fyrir þá sem það kjósa, án þess að leggja þurfi út í mjög verulegan kostnað við dýr samgöngumannvirki í þágu þess ferðamáta.

Þá þarf auðvitað líka að horfa til skipulags byggðarinnar en verið er að skoða það sérstaklega í svæðisskipulaginu og líka í aðalskipulagi þeirra sveitarfélaga sem um ræðir og þá bæði að því er varðar þéttingu og sjálfbærnissjónarmið en ekki síður aukinn möguleika til almenningssamgangna.

Hér er auðvitað um langtímaverkefni að ræða og við gerum okkur öll grein fyrir því að þetta er langtímaverkefni sem er bæði mjög dýrt og tekur mjög langan tíma. En við sjáum í löndum í kringum okkur og borgum þar sem er svipaður íbúafjöldi að þetta er verkefni sem borgirnar setja af stað og síðan eru áætlanir um lengingar á svona línum sem ná yfir marga áratugi þar sem verið er að bæta við á þriggja eða fimm ára fresti stoppistöðvum á langar línur og hefur gefist afar vel.

Af þeim sökum er mikilvægt að hefjast handa við könnunina. Hér er um það að ræða að ríkisvaldið komi að sem hagsmunaaðili og styðji þá vinnu sem fyrir hendi er hjá sveitarfélögunum, enda kom það fram að nýlega var skrifað undir samkomulag milli Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Vegagerðarinnar um samstarf um þróun samgöngukerfa á höfuðborgarsvæðinu. Vinnan er því í raun komin í gang að hluta. Samkomulagið snýr að þróun almenningssamgangna og sjálfbærri samgönguáætlun á höfuðborgarsvæðinu sem heild og er þessi tillaga afar vel til þess fallin að skjóta styrkum stoðum undir þá vinnu.

Í tillögunni sjálfri segir að innanríkisráðherra sé falið í samstarfi við hlutaðeigandi sveitarfélög og stofnanir að láta kanna hagkvæmni lestarsamgangna milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur annars vegar og léttlestakerfis innan höfuðborgarsvæðisins hins vegar. Þar kemur fram að kannaðir verði kostir þess samgöngumáta og gallar sem og hugsanlegar leiðir. Sjónum verði einkum beint að kostnaði og ávinningi samfélagsins og efnahagslegum, umhverfislegum og skipulagslegum áhrifum. Í því skyni verði leitað til sérfræðinga innan lands og utan.

Hér er því um að ræða framtíðartillögu, tillögu sem snýst um að hafa augun opin gagnvart framtíðarmöguleikum í skipulagi, í samgöngumátum og ekki síst í þróun byggðar í landinu, þar með talið á höfuðborgarsvæðinu. Ég vænti þess að sú tillaga sem hér er borin upp af þverpólitískum hópi njóti stuðnings í þinginu.