144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

101. mál
[10:58]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér jákvætt að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafi komið sér saman um að kanna þá samgöngumáta sem hér eru til umræðu, sérstaklega varðandi léttlestirnar. Ég hef verið mikill stuðningsmaður samgöngubóta og er alveg til viðræðu um hvort það sé nokkuð sem henti Reykvíkingum ágætlega. Á hinn bóginn er verið að tala um einhvers konar lestarsamgöngur til Keflavíkur.

Vandamálið við báðar þessar tillögur er að þær eru algjörlega ófullmótaðar. Haldinn var einn fundur um þetta mál í umhverfisnefnd, eða brot úr fundi, þetta var ekki á meðal forgangsmála nefndarinnar og var engin sátt um það í nefndinni, stjórnarandstaðan hafði lagt áherslu á annað mál en þetta er mál Pírata. Í ljósi þess að svæðisskipulagið var samþykkt fyrir mjög stuttu síðan var engu að síður vilji stjórnarandstöðunnar að þetta yrði forgangsmál í þeim samningaviðræðum sem fram fóru á milli stjórnarflokkanna og ég geri svo sem ekki athugasemdir við það.

Ég vil hins vegar benda á eitt. Það er afar erfitt að fara af stað með einhvers konar hagkvæmniathugun þegar það liggur á engan hátt fyrir hvernig útfærslan á að vera á annars vegar léttlestakerfinu og hins vegar á lestarsamgöngum á milli Keflavíkur og Hafnarfjarðar. Rætt var á þessum stutta fundi að gert væri ráð fyrir einhvers konar undirgöngum til miðju Reykjavíkur, en ef af þeim verður er kannski um að ræða að eingöngu í léttlestakerfið, sem eru náttúrlega bara járnbrautarlestir innan höfuðborgarsvæðisins, ætti að kosta á bilinu 40–90 milljarða. Við erum þá komin langleiðina í það sem við eyðum í Landspítalann á hverju ári, slíkar eru fjárhæðirnar. Ég bendi á að skekkjumörkin ein og sér eru samtals allt það fé sem við eyðum í öll samgöngumál á landinu, ekki í eitt ár, ekki tvö ár, heldur kannski þrjú til fjögur ár.

Í mínum huga er því algjörlega óraunhæft að fara í einhvers konar hagkvæmniathugun á þessu á meðan sveitarfélögin hafa ekki mótað þessa vinnu betur. Það verður líka að liggja fyrir hvort menn hugsa um einhvers konar hraðlest og hvort vilji sé til þess að fara í þá framkvæmd.

Síðan vil ég benda á að eitt og annað hefur verið talað um varðandi sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga. Ég hef verið þeirrar skoðunar að hann megi takmarka þegar þjóðarvilji og þjóðarhagsmunir eru aðrir. En það hlýtur að vera umhugsunarvert að skilaboðin séu sú að allir landsmenn eigi að taka þátt í að byggja upp slíkt kerfi innan höfuðborgarsvæðisins á meðan ríkið stendur ekki straum af kostnaði almenningssamgangna annars staðar á landinu, þ.e. innan einstakra sveitarfélaga, annars staðar en hér í höfuðborginni.

Mér finnst menn vera komnir í ansi mikla mótsögn við sjálfa sig þegar þeir vilja ekki ræða það að fulltrúar allra landsmanna eigi að taka ákvörðun um framtíð Reykjavíkurflugvallar, sem er jú alþjóðaflugvöllur og eitthvert mikilvægasta samgöngumannvirki þjóðarinnar, en kalla strax eftir því um leið og samþykkt er að taka einhver skref í átt að könnun á léttlestakerfi að það sé ríkið sem kanni og komi væntanlega að einhvers konar fjármögnun upp á tugi ef ekki hundruð milljarða króna. Það eru önnur brýn verkefni. Kallað hefur verið eftir nýjum Landspítala. Sú framkvæmd er mjög dýr. Væntanlega verður hún dýrasta framkvæmd Íslandssögunnar, mun hlaupa á allt að 100 milljörðum kr. Ég vil að menn geri sér aðeins grein fyrir þeim stærðum sem hér eru.

Ég vil líka benda á annað. Gert var samkomulag á milli ríkis og höfuðborgar um að ríkið mundi fjármagna almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Það var gert með þeim skilyrðum að ekki yrði farið í stórar framkvæmdir á þessu svæði í tíu ár. Þá veltir maður fyrir sér: Ef hér á að framkvæma fyrir 50 milljarða, vilja menn þá fara í stórframkvæmdir á þeim tíma? Eru menn reiðubúnir? Ég bendi á að þetta mál virðist engan veginn hafa verið hugsað og mér þykir miður að ekki hafi verið lögð meiri áhersla á það, að við höfum ekki haft tíma eða ráðrúm til þess að fjalla betur um það í samgöngunefnd. Ég tek því að stórum hluta undir með þeim sem hér rita undir minnihlutaálitið og mun ekki greiða þessari tillögu atkvæði mitt.