144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

101. mál
[11:18]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þetta er raunar í fjórða skipti sem þessi tillaga er flutt á þinginu, hún var áður flutt af fyrrverandi hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni. Það kemur því kannski ekki á óvart að við höfum lagt áherslu á að fá tillöguna hér til afgreiðslu. Það hefur verið mælt fyrir henni fjórum sinnum og henni var dreift í september á þessu þingi þótt hún hafi ekki komist á dagskrá þingsins fyrr en 18. febrúar, og maður veltir fyrir sér af hverju það tekur sex mánuði yfir höfuð að fá þingmannamál á dagskrá. Mánuð tók það svo til viðbótar að fá tillöguna senda út til umsagnar.

Á meðan hefur mjög margt gerst, frá því að tillaga var flutt í fyrsta skipti, og það er það sem hv. þingmenn hafa farið yfir í ræðum sínum, nýtt svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins. Mig langar að vekja athygli á því að það virðist vera sem hér rofni allar hefðbundnar flokkslínur í ljósi þess að á tillögunni eru flutningsmenn hv. þingmenn fjögurra flokka, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Framsóknarflokksins, og undir nefndarálit þess meiri hluta sem styður það að málið fari hér í gegn eru síðan þingmenn Vinstri grænna, Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks, Pírata og Bjartrar framtíðar. Það má því segja að þetta mál njóti stuðnings úr öllum flokkum.

Ég heyri þó að það virðast vera efasemdaraddir, a.m.k. úr einhverjum flokkum, og það kemur mér á óvart í ljósi þess að hér, eftir að þetta svæðisskipulag var samþykkt af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu, má líka sjá allt hið pólitíska litróf. Raunar er Sjálfstæðisflokkurinn þar í meiri hluta, í meiri hluta þeirra sveitarfélaga, þannig að ég vænti þess að þaðan komi stuðningur við þetta mál, þ.e. ef hv. þingmenn á höfuðborgarsvæðinu styðja sína sveitarstjórnarmenn sem eru að takast á við þessi mál.

Mig langar að segja að í stuttu máli að þetta hefur verið rætt í talsverðan tíma og ekki að ósekju. Það hafa ítrekað á undanförnum árum komið fram ábendingar um að almenningssamgöngukerfið á höfuðborgarsvæðinu muni springa og það megi ekki líða mörg ár áður en annars konar kerfi verði tekið í notkun. Það er það sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru að koma sér saman um í samstarfi við Vegagerðina, sem er auðvitað þáttur hins opinbera í þessu. Þá er verið að ræða annað hvort léttlestakerfi eða einhvers konar hraðvagnakerfi. Það er ljóst að kostnaður við það er verulegur, en það er líka verulegur kostnaður í því að halda áfram umbótum á vegakerfinu innan höfuðborgarsvæðisins. Við vitum alveg að ein mislæg gatnamót kosta marga milljarða, svo dæmi sé tekið. Það mun því alltaf mun verða um kostnað að ræða. Spurningin er hvaða stefnu á að marka í því hvernig samgöngur við ætlum að hafa.

Hugsunin á bak við þessa tillögu er að horfa á kostnað og ávinning samfélagsins og efnahagsleg, umhverfisleg og skipulagsleg áhrif, þ.e. hvaða áhrif þetta hefur til að mynda á skipulag höfuðborgarsvæðisins, hvaða áhrif þetta hefur á umhverfismál. Við vitum að hæstv. umhverfisráðherra var að kynna mjög metnaðarfull loftslagsmarkmið. Ég get ekki ímyndað mér annað en að stór hluti í því að uppfylla þau markmið verði að skoða samgöngumáta Íslendinga. Þar eigum við tækifæri, sérstaklega í þéttbýlinu, á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda þar sem er hægt að nýta almenningssamgöngur í miklu meira mæli en úti um land þar sem eru dreifðari byggðir. Eigum við þá ekki að horfa á það hvernig við getum náð þeim áhrifum?

Hér er fyrst og fremst lagt til að þessi könnun fari fram. Þar hafa sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu þegar unnið talsverða vinnu, eins og kemur fram í samþykktu svæðisskipulagi þar sem allir flokkar koma að með einum eða öðrum hætti. En það er mikilvægt að ríkið komi að málinu líka. Ríkið er auðvitað aðili að samstarfi í gegnum Vegagerðina, en ég tel mjög mikilvægt að Alþingi Íslendinga láti sig varða þessa stefnumörkun, því að við erum líka að ræða að hluta um samgöngukerfi allra landsmanna. Þá er ég að vitna til stofnæðanna á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og hins vegar þeirrar könnunar sem hér er lögð til, þ.e. að skoða hagkvæmni samgangna á milli Keflavíkur og Reykjavíkur. Eins og bent er á í greinargerð með tillögunni erum við líka að horfa á stóraukinn ferðamannastraum þar sem við höfum vart undan að stækka flugstöðina til að taka á móti þeim ferðamönnum né heldur að koma þeim á milli staða.

Þetta var stutt innlegg til að minna á að þetta er alls ekki í fyrsta sinn sem þetta mál er hér til umræðu. Það hefur verið nægur tími til að fjalla um málið. Við erum að horfa á sveitarstjórnarstigið í raun og veru taka fram úr ríkinu með umfjöllun sinni um þessi mál. Mér finnst að minnsta kosti mikilvægt að Alþingi Íslendinga og forustufólk okkar í umhverfis- og samgöngumálum sé virkir þátttakendur í því hvernig við ætlum að þróa samgöngumáta framtíðarinnar, hvort sem er úti um land eða á höfuðborgarsvæðinu. Þar þurfum við að sjálfsögðu að horfa líka á samhengi við loftslagsmarkmiðin og skipulagið. Mér finnst eðlilegt að Alþingi stígi þetta skref og taki þátt í þessu með sveitarfélögunum, en sitji ekki hjá eins og einhver passífur aðili að því hvernig við ætlum að móta samgöngustefnu til framtíðar. Ég fagna því að þetta mál er komið á dagskrá og vænti þess að það fái víðtækan stuðning úr öllum flokkum.