144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

101. mál
[11:32]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að leiðrétta nokkur atriði og vekja enn og aftur athygli á því að ég sagðist vera jákvæður gagnvart því að sveitarfélögin hefðu komist að þessu samkomulagi, svo að því sé haldið til haga. Ég sagði það mjög skýrt. Ég ímynda mér að hv. þm. Katrín Jakobsdóttir hafi hlustað á mitt mál og tekið eftir þeim orðum. Ég verð því miður að lýsa vonbrigðum mínum yfir því skítkasti sem ég þurfti að þola frá hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur. Það er ekki í fyrsta skipti. Ég var ekki að blanda Reykjavíkurflugvelli inn í umræðuna nema hvað ég nefndi það á nafn, ef menn hefðu hlustað, að þegar menn ræða sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga þá tala þeir eins og það séu eingöngu Reykvíkingar, höfuðborgarbúar eða fulltrúar þeirra, sem hafi algjört sjálfræði um það hvort flugvöllurinn fari eða verði. Þegar hins vegar kemur að því að skipuleggja léttlestakerfi sem verður væntanlega hluti af almenningssamgangnakerfinu í Reykjavík þá finnst mönnum allt í lagi að íbúar á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi greiði ekki bara fyrir hagkvæmniathugun á því heldur líka fyrir uppbygginguna þegar hún á sér stað. Mér finnst það athugunar vert. Það var í því samhengi sem ég nefndi umræðuna um Reykjavíkurflugvöll. Annars nefndi ég ekki Reykjavíkurflugvöll í tengslum við þetta mál. Ég frábið mér að hér skuli vera haldin löng ræða þar sem var gefið í skyn að ég hafi sagt eitthvað sem ég hef alls ekki sagt með ýmiss konar dylgjum og ósannindum.

Ég er alveg sammála hv. þm. Andrési Inga Jónssyni og ég fagna því að það sé breið samstaða og þingmenn úr öllum flokkum standi að málinu, mér finnst það gott. Ég vona að hann sé sammála mér um það að hálfur fundur, fáar umsagnir og nánast engin umræða í nefnd teljist ekki góð vinnubrögð.

Þá langar mig að koma að einu. Ég hlustaði á ræðu hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur. Ég er sammála henni. Við eigum einmitt að hugsa heildstætt um samgöngumál. Það hef ég gert og hef talað fyrir því og gerði það reyndar í fyrri ræðu minni. En þegar við tölum um jarðgöng og þegar við tölum t.d. um Landeyjahöfn eða annað þá komumst við ekki hjá því að ræða kostnaðinn. Mér fannst stjórnarandstaðan algjörlega skauta fram hjá því að nefna tölur. Það var vissulega nefnt að kostnaðurinn yrði mikill, en við erum ekki að tala um 10–20 milljarða eða eitthvað svoleiðis, við erum að tala um tölur annars vegar á bilinu 40–90 milljarða samkvæmt fréttaflutningi og svo erum við að tala um að járnbrautarlest eða einhvers konar hraðlest á milli Keflavíkur og Hafnarfjarðar mundi kosta 35 milljarða, það er tala sem ég er með í kollinum. Þá eigum við eftir að ræða göngin sem eiga að koma undir höfuðborgarsvæðið og voru nefnd í nefndinni, sem mundu væntanlega hlaupa á tugum milljarða kr.

Ég er bara að benda á, og vona að menn skilji það ekki öðruvísi, að mér finnst að sveitarfélögin þurfi að þróa vinnu sína lengra. Það er aðalatriðið í þessu máli. Þróa vinnuna lengra, koma sér saman um hvar leiðirnar eiga að liggja, hvernig menn sjái þetta fyrir sér og þá fyrst er hægt að ræða hvort eigi að fara í hagkvæmniathugun.

Ég verð að segja alveg eins og er að þegar menn tala um járnbrautarlest út um allt land, til Selfoss og upp á Akranes og annað, þá velti ég vöngum yfir umhverfisþættinum. Ég er ekki á því að það sé góður bragur á því að við séum með járnbrautarlestir um allt land. Ég held að það sé óraunhæft í ljósi mannfæðar. Við erum fámennt land. Hér hafa verið nefnd dæmi um léttlestakerfi í einni til tveimur borgum. Mér er til efs að það séu fleiri borgir sem eru jafn fámennar að velta þessu fyrir sér. Ég held að ef við tökum Evrópu í heild sinni þá séu kannski bara þessar tvær borgir að velta þessu fyrir sér, allur hinn aragrúinn láti sér ekki detta það í hug vegna þess að menn verða að sýna ábyrgð þegar þeir tala um fjárútlát.

Hér var fullyrt að þetta mál hafi komið áður til tals, væntanlega í tíð síðustu ríkisstjórnar. Ég mundi gjarnan vilja vita af hverju síðasta ríkisstjórn samþykkti ekki sambærilegt mál. Ég veit ekki alveg hvenær það var fyrst lagt fram en mér skilst að það hafi verið gert. Ég velti fyrir mér hvort menn hafi þá ekki horft í fjármunina. Ég tel að það sé ábyrgðarlaust að tala um fjárútlát upp á tugi, jafnvel hundruð milljarða án þess að reifa það á nokkurn hátt hvaðan þeir fjármunir eigi að koma, hvaðan eigi að sækja tekjurnar. Ef menn ætla ekki að sækja tekjur eða eitthvað svoleiðis, af hvaða liðum ætla þeir að taka? Við erum að eyða gríðarlega miklum fjármunum í heilbrigðisþjónustu og það hefur verið í forgangi hjá þessari ríkisstjórn. Ég held að menn þurfi að tala af ábyrgð.

Að öðru leyti vil ég ítreka það sem ég sagði hér áðan. Ég er jákvæður gagnvart því að sveitarfélögin vilji hefja þessa vegferð. Ef það er vilji sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu mun ég styðja það, en ég get ekki stutt það á þessu stigi málsins að ríki sé gert að greiða fyrir hagkvæmniathugun og leggst alfarið gegn því að íbúar alls landsins eigi að greiða fyrir uppbyggingu upp á einhverja tugi eða hundruð milljarða.