144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

101. mál
[11:40]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér er ljúft og skylt að koma hér með nokkrar athugasemdir við ræðu hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar. [Kliður í þingsal.]

(Forseti (EKG): Forseti biður um hljóð í þingsalnum.)

Eins og fram kom í ræðu minni þá hefur þessi tillaga áður verið flutt. Hún var til að mynda flutt á þinginu 2007–2008, af því hv. þingmaður spurði. Hún hefur verið flutt nokkrum sinnum með hléum og fengið nokkra umfjöllun.

Ég vil svo segja, af því hv. þingmanni finnst óábyrgt að vera að ræða hér mál af því að þetta muni kosta eitthvað, að ég er sammála því að þetta muni kosta eitthvað. Ég tók það alveg skýrt fram í ræðu minni. Mér finnst hins vegar ábyrgðarhluti að við reynum að fá þær tölur á hreint og förum í hagkvæmniathugun til þess að meta kostnaðinn þannig að umræðan snúist ekki um að einn segi að kannski kosti þetta þetta marga milljarða og annar segi hina. Á það ekki einmitt að vera okkar markmið að fá þetta fram? Þetta er ekki einkamál sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu enda kom það klárlega fram hjá mér að hið opinbera kemur að samgöngukerfinu á höfuðborgarsvæðinu í gegnum stofnæðar. Fyrir það greiða allir landsmenn alveg eins og allir landsmenn greiða fyrir vegaframkvæmdir úti um land.

Þegar hv. þingmaður segir að hann líti ekki svo á að það sé hlutverk ríkisins að koma að slíku kerfi á höfuðborgarsvæðinu segi ég: Það er ekki einkamál höfuðborgarsvæðisins hvernig stofnæðar þess eru fjármagnaðar. Ekki finnst hv. þingmanni það, ég get ekki trúað því að það hafi verið meining hv. þingmanns. Við á höfuðborgarsvæðinu greiðum með glöðu geði fyrir samgöngubætur um allt land. Við þingmenn í þessum sal hljótum að vera að hugsa um hagsmuni alls landsins og hið sama hlýtur að gilda um höfuðborgarsvæðið þegar um er að ræða stofnæðakerfið. Þegar við erum að horfa á stofnæðakerfið á höfuðborgarsvæðinu þá kostar auðvitað að halda því við. Ég fór yfir það í máli mínu. Það kostar að reisa mislæg gatnamót á stofnæðum, svo að dæmi sé tekið, sem er greitt fyrir af Vegagerðinni. Það sama hlýtur að eiga við um þetta. Ég hlýt að hafa misskilið hv. þingmann.