144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[12:50]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það eru mikil vonbrigði að lyktir málsins skuli vera með þeim hætti sem raun ber vitni og sá tvískinnungsháttur sem einkennt hefur umræðuna er með eindæmum og á sér vart fordæmi í þinginu. Hann endurspeglast í atkvæðaskýringum eða þegar rætt er um atkvæðagreiðsluna hjá þeim sem þegar hafa tekið til máls. Tvískinnungshátturinn hjá hv. formanni Vinstri grænna, sem talar um að náttúran njóti vafans. Þau styðja að virkjað verði við Mývatn, jarðvarmavirkjanir til þess að afla orku á Bakka fyrir stóriðju sem mengar sjö sinnum meira á framleitt tonn en álver — og þetta er þeirra mál, á sama tíma og vinstri grænir standa í vegi fyrir því að eðlileg uppbygging geti átt sér stað hér sunnan heiða með því að virkja í neðri hluta Þjórsár þar sem umhverfisáhrifin eru með því minnsta sem gerist, eins og komið hefur fram í öllum skoðunum á öðrum virkjunarkostum í landinu.

Tvískinnungshátturinn kristallast í þessu og ég harma að umræðan skuli vera með þessum hætti, (Forseti hringir.) þ.e. svo ómálefnaleg sem raun ber vitni. En eins og ég sagði í ræðu minni í gær: Fyrri hálfleik var að ljúka, nú er hálfleikur, og seinni hálfleikur mun hefjast og hann mun hefjast með stæl.