144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[12:51]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að þegar verkefnisstjórn skilar af sér eigi hún að skila af sér lista af virkjunum. Komið hefur fram, og það er í samræmi við lögin, að verkefnisstjórn á að fjalla um stórt mengi virkjunarhugmynda og raða þeim í ólíka flokka. Ég er þess vegna ósammála þeirri aðferðafræði sem hér er beitt þar sem einn virkjunarkostur er tekinn út.

Þessi tillaga hefur þó það sér til málsbóta að verkefnisstjórn hefur mælt með flutningi þessa virkjunarkosts úr biðflokki í nýtingu. Ég er engu að síður þeirrar skoðunar persónulega að ekki sé ástæða til þess að flytja Hvammsvirkjun á milli flokka. Ég byggi þá skoðun mína á þeirri sannfæringu að ekki sé búið að sýna fram á afleiðingar þeirrar virkjunar á vistkerfi og lífríki Þjórsár. Ég er líka þeirrar skoðunar að byggja megi skoðun á virkjunarkostum einfaldlega á þeirri einföldu skoðun að maður vilji hafa landslag eins og það er.