144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[12:54]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er einmitt í svona átakamálum sem þarf að vera rammi. Það þurfa að vera leikreglur sem tryggja að hægt sé að fara í langtímastefnumótun í málum sem varða annars vegar að vernda náttúruna og hins vegar að nýta náttúruauðlindir. Menn takast á af því að þeir hafa ákveðið gildismat. Þegar tekist er á um slíkt verður að vera til rammi fyrir leikinn.

Það sem ég er ofboðslega ánægður með er að okkur tókst að tryggja að ekki var farið út fyrir þann ramma sem var búinn til á síðasta kjörtímabili. Við fórum ekki út fyrir rammann. Þegar hv. formaður atvinnuveganefndar, Jón Gunnarsson, segir að það sé bara hálfleikur núna og svo hefjist leikurinn aftur í haust þá vona ég að allir geti haldið sig áfram innan rammans, að þeir fari ekki að taka boltann út af og reyni þannig að svindla málum áfram. Ég vona að við getum haldið okkur inni á leikvellinum í þessum leik.