144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[12:58]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég harma það að þeir sem hæst hafa um lýðræðið skuli ekki virða það meira en svo að í minni hluta skuli þeir koma í veg fyrir þá viðleitni meiri hluta atvinnuveganefndar og meiri hluta Alþingis að skapa störf og auka útflutningstekjur þjóðarinnar, að nýta auðlindir landsins til að skapa betri lífskjör fyrir fólkið í landinu. Ég harma það. Ég hélt á þessum tímum, þar sem slagur um laun hefur verið mikill undanfarið og lífskjör eru borin saman við nágrannalöndin, að það hvarflaði ekki að einhverjum hér inni að við þyrftum ekki að nýta hér allar auðlindir til að skapa sem best lífskjör og sambærileg lífskjör fyrir fólkið í landinu og eru annars staðar.