144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

veiðigjöld.

692. mál
[13:05]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnarmeirihlutinn heldur áfram á þeirri vegferð sinni að draga úr tekjum okkar allra af sameiginlegum auðlindum, létta veiðigjöldum og þegar allt verður talið núna, eftir þessa síðustu atrennu sem stjórnarþingmenn stæra sig af á göngum Alþingis, mun þeim hafa tekist að létta á ársgrundvelli einum 9 milljörðum í veiðigjöld. Þetta fé gætum við verið að nýta til mikilvægrar uppbyggingar í samgöngumálum, til þess að gera heilbrigðiskerfið okkar aftur þannig úr garði að við getum verið stolt af því og það virki. Við gætum verið að byggja hjúkrunarheimili. Við gætum verið að tryggja aðbúnað fyrir þá sem sjúkir eru og eru í óskapavandræðum inni á spítölum, komast ekki á hjúkrunarrými o.s.frv.

Hér er haldið áfram á vegferð sem Samfylkingin getur ekki stutt, (Forseti hringir.) sem er sú að afsala okkur, almenningi í landinu, tekjum af sameiginlegum auðlindum.