144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

veiðigjöld.

692. mál
[13:11]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er hægt að segja hálfsanna sögu á þennan veg: Það er rétt að aldrei hefur meira verið sett í heilbrigðiskerfið í krónum talið, en krónan kaupir bara ekki það sem hún keypti. Það er því ekki verið að setja jafn mikil verðmæti eða jafn mikinn kraft eða þrótt í heilbrigðiskerfið og hefur verið gert. Það er sannleikurinn. Samkvæmt öllum forsvarsmönnum heilbrigðisstofnana á Íslandi vantaði 3 milljarða á síðustu fjárlögum og þau fjárlög voru samt hallalaus upp á 3,4 milljarða. Það er ekki forgangsröðun í fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu.

Nú í dag er verið að setja gerðardóm á hjúkrunarfræðinga og aðra heilbrigðisstarfsmenn sem voru í verkföllum. Það hefði verið hægt að afstýra því með því að forgangsraða fé í heilbrigðiskerfið. Það vantaði nokkra milljarða upp á það og alla vega miklu minna en hefur verið afsalað á þessu kjörtímabili til sjávarútvegsins, kannski hefur aldrei verið meira tekið frá honum í krónutölu en það er annar hálfsannleikur. Alvörusannleikurinn er sá að hann hefur aldrei staðið sig betur en núna, þannig að (Forseti hringir.) að sjálfsögðu, þótt þú takir minni prósentutölu geturðu verið að fá meira í krónum.

Nei, það er ekki verið að forgangsraða í fyrsta flokks (Forseti hringir.) heilbrigðisþjónustu, það er ekki verið að gera það. Forgangsröðunin liggur annars staðar.