144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

veiðigjöld.

692. mál
[13:18]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er meiri hlutinn að leggja til afslætti í veiðigjöld fyrir minni og meðalstórar útgerðir og nýtir til þess 300 milljónir. Öll umræða undanfarin missiri hjá meiri hlutanum hefur gengið út á það að lækkun veiðigjalda heilt yfir hjá þeim hafi átt að nýtast minni og meðalstórum útgerðum, menn hafa falið sig á bak við það. Síðan hafa menn verið að lækka útgjöldin, sem hefur komið sér vel fyrir stóru fyrirtækin í landinu sem eru með bolfisk alveg jafnt og önnur fyrirtæki. Það er verið að lækka veiðigjöld á Samherja og Vinnslustöðina og Granda.

Útfærsla okkar Vinstri grænna og Samfylkingar gengur einmitt út á að fanga þessi minni og meðalstóru fyrirtæki, sem menn hafa skreytt sig með í umræðunni, og við viljum að komið sé til móts við þau. Hér er meiri hlutinn að sýna einhvern lit, einhver skref í þá átt, (Forseti hringir.) en þessar 300 milljónir versus 500 milljónir hjá okkur nýtast miklu verr fyrir minni og meðalstórar útgerðir. Það er flatt áfram upp til Granda og co.