144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

30. mál
[13:31]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mikið ánægjuefni að þessi breyting sé að koma til lokaafgreiðslu í þinginu og að atkvæðataflan sýni stuðning við hana. Þetta er mál sem við í Samfylkingunni höfum lagt mikið upp úr og er burðarásinn í tillögu sem við lögðum fram í haust, um stuðning við lítil og meðalstór fyrirtæki. Það er alveg ljóst að heimildin mun nýtast þekkingarfyrirtækjum. Mikið hefur verið kallað eftir því af þeirra hálfu að heimildir verði rýmkaðar að þessu leyti og á tækni- og hugverkaþingi hefur ítrekað verið lýst yfir stuðningi við hugmyndir í þessa veru. Það er því mikið ánægjuefni að þetta sé að verða að veruleika. Ég vil líka þakka formanni efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Frosta Sigurjónssyni, sem er 1. flutningsmaður málsins og hefur borið veg og vanda af meðferð þess í nefndinni.