144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

almenn hegningarlög.

470. mál
[13:34]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Við greiðum hér atkvæði um frumvarp sem lagt er fram um breytingu á hegningarlögum til þess að takast á við þann vágest í samfélagi okkar sem kallast heimilisofbeldi. Ég þakka fulltrúum úr öllum flokkum fyrir að sýna samstöðu í þessu máli og vinna af heilum hug að því allan tímann. Það er fagnaðarefni að öll allsherjar- og menntamálanefnd er á málinu.

Við meðferð málsins kom í ljós að innanríkisráðuneytið hefur einnig tekið málið mjög alvarlega og falið refsiréttarnefnd að semja ákvæði um heimilisofbeldi. Þess vegna erum við að fella á brott 1. gr. frumvarpsins en höldum eftir 2. gr., sem fjallar um nálgunarbann sem heimilar öðrum en brotaþola sjálfum að kæra gegn broti á nálgunarbanni. Þetta er mjög þarft mál í þeirri baráttu sem við stöndum í núna og það er fagnaðardagur í þinginu í dag þegar við stöndum saman um þetta mál. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)