144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

almenn hegningarlög.

470. mál
[13:35]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Allsherjar- og menntamálanefnd hefur fjallað á fundum sínum um heimilisofbeldi allt þetta kjörtímabil og kallað eftir því frá ráðuneytinu hvort ekki sé ástæða til þess að setja sérstakt ákvæði um heimilisofbeldi inn í almenn hegningarlög. Það er mikið fagnaðarefni að þeirri vinnu er nú að ljúka í refsiréttarnefnd. Ég geri ráð fyrir því að frumvarp þar að lútandi komi fram í haust og vonast til þess að viðbrögðin við því í þingsalnum verði svipuð og við þessum hluta málsins sem við samþykkjum nú.

Heimilisofbeldi er vágestur sem varðar okkur öll. Þrátt fyrir að það hafi verið viðurkennt sjónarmið hingað til að það sem gerist innan veggja heimilisins komi öðrum ekki við, þá er það einfaldlega ekki þannig. Þess vegna teljum við mikilvægt að fá nýtt frumvarp fram og hlökkum til að takast á við það í haust.