144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

plastpokanotkun.

166. mál
[13:39]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég er afar ánægð með að við skulum vera að samþykkja það núna að fela hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra að finna leiðir til að minnka plastpokanotkun hér á landi og hún eigi að skila aðgerðaáætlun fyrir 1. nóvember.

Eins og fram kom áður en við greiddum atkvæði, hjá hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur, þá hefur tillagan átt ágæta meðgöngu í þinginu. Að teknu tilliti til umræðu um hana á síðasta þingi var hún lögð hér aftur fram. Flutningsmenn eru hv. þingmenn úr öllum flokkum.

Ísland á heilmikið undir því að vera með jákvæða ímynd í umhverfismálum og þess vegna fagna ég því að við skulum vera að taka þetta skref.