144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

101. mál
[13:51]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við fjöllum um hvort gera eigi könnun á hagkvæmni lestarsamgangna í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu og alla leið til Keflavíkur. Ef ég man rétt hafa heyrst kostnaðartölur á bilinu 30–90 milljarðar fyrir svona framkvæmd. Eflaust getur verið að þetta sé orðið eitthvað ódýrara eða dýrara í dag og fagna ég allri könnun um það.

Það þyrfti eiginlega að koma fram í þessu, þá sem leiðarvísir til ráðherrans, ef þetta verður gert, að fyrir sömu peninga er hægt að kaupa 10–30 þúsund rafbíla til landsins og draga þannig úr bensíneyðslu á Íslandi. Ég vil taka undir þau sjónarmið sem komu fram hjá hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni um að það þurfi líka að skoða af alvöru þá möguleika sem eru að opnast með rafbílavæðingunni og henta okkur mjög vel og eru hugsanlega miklu hagkvæmari. Það er verkefni sem við getum farið í með minni tilkostnaði hins opinbera. Þessir (Forseti hringir.) bílar eru að verða sjálfkeyrandi og eru farnir að keyra sjálfir annars staðar og eru þess vegna orðnir (Forseti hringir.) almenningssamgöngur. Það er að verða algjör breyting á þeim möguleikum sem eru fram undan. Ég vil (Forseti hringir.) að það verði skoðað líka.