144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

101. mál
[13:56]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Að vissu marki væri það mikið stílbrot að samþykkja þessa tillögu. Fyrst ákveðum við náttúrlega að virkja, síðan ræðum við til hvers við ætlum að nota orkuna. Fyrst ákveðum við að leggja lest til Keflavíkurflugvallar eða gera það ekki, eða ráðast í samgöngubætur, lestarsamgöngur á höfuðborgarsvæðinu eða gera það ekki. Það er svona vinnureglan hér.

Hér er verið að leggja til að kostirnir séu skoðaðir. Ég hef skoðað tillögur sem fram hafa komið áður um lestarsamgöngur við Keflavíkurflugvöll. Ég hef ekki sannfærst af því. Síðan breytist tæknin og aðstæður breytast og þá skoðum við hlutina og lausnir sem við nýtum okkur í samræmi við þær breytingar. Þessi tillaga gengur ekkert út á annað en að skoða þá kosti.

Í mínum huga snýst þetta reyndar um miklu meira þegar kemur að samgöngum (Forseti hringir.) á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. hvort við ætlum að gerast Houston norðursins með 20 akreinum fyrir bíla eða færa okkur inn í 21. öldina með nútíma (Forseti hringir.) vistvænum samgöngubótum. Út á það gengur þetta mál, að skoða kostina.